Kristinn H. Gunnars­son, fyrr­verandi þing­maður, hefur gengið frá kaupum á rekstri ís­firska frétta­miðilsins bb.is og blaðsins Bæjarins besta. Sjálfur greinir Kristinn frá eig­enda­skiptunum á bb.is

Þar segir hann að á­hersla verði einkum lögð á efni um Vest­firði og Vest­firðinga, einkum í gegnum vefinn bb.is. Þá verði blaða­út­gáfa á­fram til skoðunar og fylgst með að­stæðum á markaðnum. 

Um er að ræða þriðju eig­enda­skiptin á Bæjarins besta og bb.is á rúmum þremur árum. Síðustu skipti gengu í gegn í febrúar þegar fjórir Ís­firðingar keyptu blaðið og vefinn, sem þá höfðu verið til sölu um nokkurt skeið. 

Kristinn segir að þrátt fyrir góð­æri undan­farinna ára hafi rekstur fjöl­miðla ein­kennst af þungum róðri og rekstrar­tapi. 

„Af þeim á­stæðum er það nokkur á­skorun að takast þessi rekstur á hendur. En lykillinn að árangri liggur í því að halda út­gjöldum innan þeirra marka sem tekjur leyfa. Það er gömul og gull­væg regla sem hafa skal í heiðri og því munu um­svif aukast svo skjótt sem grunnurinn stendur undir hverju sinni,“ skrifar hann.