Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Hún tekur við starfinu af Salóme Guðmundsdóttur sem lætur af störfum í júní. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Kristín Soffía hefur verið borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Samfylkinguna frá árinu 2014, stjórnarformaður Faxaflóahafna frá árinu 2014 og var varaborgarfulltrúi á árunum 2010-2014. Hún er með BS próf í umhverfisverkfræði.

Icelandic Startups er í eigu Origo, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Allir þessir aðilar leggja mikið af mörkum í að efla nýsköpun á Íslandi. Icelandic Startups veitir frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á Íslandi stuðning, en félagið stendur meðal annars að viðskiptahraðlinum Startup Supernova sem er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki. Þá skipuleggur Icelandic Startups nýsköpunarverkefnin Gulleggið, Til sjávar og sveita, Startup orkidea, Snjallræði, Hringiðu og Firestarter.

„Framundan er vinna sem felst í því að skýra framtíðarsýn félagsins og hvernig það getur enn frekar stutt við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og verið hvatning og leiðarljós í nýsköpun hér á landi,“ segir Huld Magnúsdóttir, stjórnarformaður Icelandic Startups.

Kristín Soffía Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Icelandic Startups, segir að nýsköpun hafi sjaldan verið mikilvægari en í dag. „Öflugt nýsköpunarstarf mun skapa störf, leysa þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í umhverfismálum og bæta lífsgæði hér á landi.“