Píratar hafa ráðið nýjan framkvæmdastjóra, Kristínu Ólafsdóttur, sem hóf störf 16. janúar síðastliðinn og tók þá við starfinu af Elsu Kristjánsdóttur.

Kristín er með meistaragráðu í mannréttindalögfræði og BS gráðu í viðskiptafræði. Hún býr yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu og frá félagasamtökum. Kristín hefur undanfarið ár verið að læra um
skaðaminnkandi nálgun og úrræði og unnið við það, ásamt því að sinna kennslu. Hún var áður framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna í þrjú ár.

„Við teljum okkur lánsöm að fá Kristínu til liðs við okkur, en hún hefur mikla og góða reynslu sem mun nýtast vel í störfum okkar flokks,“ er haft eftir Tinnu Helgadóttur, gjaldkeri Pírata.

„Stjórn Pírata þakkar fráfarandi framkvæmdastjóra, Elsu Kristjánsdóttur, fyrir hennar störf og samfylgdina og óskar henni velfarnaðar. Nú eru tímamót, Píratar finna fyrir miklum meðbyr og málefnin eru brýn,“ segir Tinna jafnframt.

Kristín segist hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni og láta jafnframt gott af sér leiða á meðan. „Píratar eru í mikilli sókn og kraftur grasrótarinnar er áþreifanlegur. Ég kem til með að gera mitt besta til að halda utan um góðan hóp og styðja við reksturinn og það merkilega starf sem nú þegar hefur verið unnið og þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru,“ er haft eftir Kristínu í fréttatilkynningu.