Verslunarmiðstöðin Kringlan vann til verðlauna á verðlaunahátíð ICSC, (International Council of Shopping Centers) sem eru alþjóðleg samtök verslunarmiðstöðva. Samtökin eru fagráð verslunarmiðstöðva með yfir 70 þúsund meðlimi í yfir 100 löndum, segir í tilkynningu.

Kringlan fékk verðlaun í flokknum þjónusta (customer service), fyrir rafræna aðstoð við viðskiptavini í jólagjafaleit síðustu dagana fyrir jól. Verkefnið fékk heitið Neyðarpakkatakkinn en hann var hannaður eins og sos merki og auglýstur á facebook. Þeir sem smelltu á takkann á facebook fengu samband við þjónustufulltrúa hjá Kringlunni gegnum messenger skilaboð um aðstoð við að finna síðustu jólagjöfina. Yfir eitt þúsund viðskiptavinir nýttu sér þessa aðstoð við að finna réttu gjöfina.

„Góð viðbrögð viðskiptavina við þessari einföldu þjónustu gegnum netið styrkir þá stefnu sem Kringlan hefur markað sér í stafrænni vegferð til að mæta betur þörfum viðskiptavina með þeim hætti og þeirri tækni sem heimurinn býður upp á í dag,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á ráðstefnu ICSC í London í fyrradag.

Keppt var í tíu flokkum. Verkefnin sem voru tilnefnd í sama flokki og Kringlan komu frá Danmörku, Ítalíu, Portúgal, Danmörku, Belgíu og Lettlandi.

Kringlan hefur áður hlotið verðlaun samtakanna, árið 2012 fyrir Miðnætursprengju og árið 2014 fyrir leikinn Kringlukröss.