Verslunarmiðstöðin Kringlan hefur verið tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna frá ICSC, sem eru alþjóðleg samtök verslunarmiðstöðva.

Kringlan hlaut tilnefningu í flokki þjónustu fyrir rafræna aðstoð við viðskiptavini í jólagjafaleit síðustu dagana fyrir jól. Verkefnið fékk heitið „Neyðarpakkatakkinn“ en hann var hannaður eins og sos merki og auglýstur á facebook. Þeir sem smelltu á takkann á facebook fengu samband við þjónustufulltrúa hjá Kringlunni gegnum messenger skilaboð um aðstoð við að finna síðustu jólagjöfina. Þjónustan vakti mjög mikil viðbrögð og á aðeins þremur dögum fengu yfir eitt þúsund viðskiptavinir persónulega aðstoð við að finna réttu gjöfina.

Í fréttatilkynningu frá Kringlunni er haft eftir Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar, að verðlaunin séu mjög eftirsóknarverð meðal annars vegna þess að samtökin eru alþjóðlegt fagráð verslunarmiðstöðva með yfir 55 þúsund meðlimi í 90 löndum.

Kringlan hefur áður hlotið verðlaun samtakanna, árið 2012 fyrir Miðnætursprengju og árið 2014 fyrir leikinn Kringlukröss. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á ráðstefnu ICSC í London í september.