Staðan á Íslandi er sú að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist undanfarin ár í auknum stuðningi og fjárfestingum í sprotafyrirtækjum og nýsköpun, þá er aðgangur að fjármagni enn ein veigamesta hindrunin fyrir frekari uppbyggingu sprotafyrirtækja. Þeir fjármunir sem fylgja Kríu, og eru hrein viðbót við fjárfestingar lífeyrissjóða og einkaaðila, eru því kærkomin viðbót. Þetta segir Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Venture Mangement.

„Síðan skiptir ekki síður máli sú viðurkenning og hvatning sem felst í því að ríkisvaldið sé að leggja fram þessa fjármuni. Það er hvatning sem beinist bæði að öðrum fjárfestum um að gefa þessum eignaflokki aukinn gaum, sem og hvatning til þeirra sem fást við og sérhæfa sig í fjárfestingum af þessu tagi og undirstrikar að fjárfestingar í sprotafyrirtækjum krefjast ákveðinnar sérhæfingar, reynslu og þekkingar,“ segir hann.

Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Venture Mangement ásamt Þórði Magnússyni stjórnarformanni félagsins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra kom Kríu frumkvöðlasjóði á koppinn. Hann mun fjárfesta í vísisjóðum. Í fjármálaáætlun næstu fimm ára er gert ráð fyrir að um átta milljarðar króna renni til Kríu. Hún getur að hámarki átt 30 prósent í hverjum sjóði eða lagt honum til að hámarki tvo milljarða.

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures, segir að stærð vísisjóða verði að vera fjórir milljarðar að lágmarki, helst fimm, til að geta staðið undir kostnaði við reksturinn. Tilkoma Kríu muni auka líkurnar á að þeir sem ekki hafi áður staðið í rekstri slíkra sjóða geti safnað nægu fjármagni. „Kría mun líklega skipta sköpum fyrir þá sem hafa ekki áður staðið að slíkum rekstri til að ná þessari lágmarks fjárhæð,“ segir hún. Frumtak Ventures rekur tvo vísisjóði.

„Kría mun líklega skipta sköpum fyrir þá sem hafa ekki áður staðið að slíkum rekstri til að ná þessari lágmarks fjárhæð.“

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures.
Fréttablaðið/Anton Brink

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stjórnarformaður Kríu, segir að horft sé til þess að fyrsta úthlutun sjóðsins verði í haust.

Við það vaknar spurningin hvernig úthlutun verði háttað enda líklegt að gengið verði frá stofnun vísisjóða á ólíkum tíma ársins. Kristinn Árni segir að kveðið sé á um í reglunum að úthlutun sé að lágmarki einu sinni á ári og geti því orðið oftar. Að sama skapi sé viss sveigjanleiki við úthlutun; sjóðir megi hafa safnað 70 prósentum af því fjármagni sem stefnt sé að eða hafa fjárfest fyrir allt 25 prósent af fjárhæðinni til að fá úthlutun. Sjóðir mega því hafa stigið sín fyrstu skref til að vera gjaldgengir hjá Kríu.

Kristinn Árni nefnir að Kríu sé gert að úthluta tiltekinni upphæð á hverju ári. Sú fjárhæð dreifist jafnt á milli allra vísisjóðanna sem uppfylla skilyrðin ár hvert.

Það gerir það að verkum að hve mikið hver sjóður fær í sinn hlut fer eftir því hve margir aðrir sækja um á árinu. Aðspurður segir hann að það myndi hafa betri áhrif á fjármögnunarumhverfið ef færri sjóðir fengju hærri úthlutun á einu ári en ef margir sjóðir myndu fá minna.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stjórnarformaður Kríu.
Aðsend

Árið 2015 litu þrír vísisjóðir dagsins ljós. Þeir eru í rekstri hjá Brunni, Eyri og Frumtaki og hleyptu lífi í fjármögnunarumhverfið. Að fáeinum árum liðnum voru sjóðirnir búnir að ráðstafa því fé sem þeir höfðu til nýfjárfestinga en það liðu nokkur ár þar til nýir sjóðir tóku við keflinu. Það var því ekki samfella í fjármögnunarumhverfinu. Sumir, sem þekkja vel til nýsköpunar á hér á landi, hafa áhyggjur af því að Kría hafi hvatt of marga til að taka af skarið með nýjan sjóð nú en svo muni sagan endurtaka sig; umtalsvert fjármagn verði á boðstólum um skeið en svo taki við tími þar sem frumkvöðlar komi að tómum kofanum hjá vísisjóðum þar sem þeir geti ekki lagt meira fé í nýjar fjárfestingar.

Aðspurður hvernig það horfi við að mögulega fari fimm vísisjóðir í loftið í ár segir Kristinn Árni að Kría, sem sé á vegum ríkisins, eigi ekki að ráða för þegar safnað sé fé í vísisjóði. Kría leggi sjóðum til fjármuni sem þegar hafi safnað nægu fé frá öðrum fjárfestum. Um sé að ræða fé ríkisins og því verði að vinna eftir skýrum reglum. Ekki sé hægt að neita sjóðum sem uppfylli skilyrðin um úthlutun.

„Markmið Kríu er að byggja upp fjármögnunarumhverfið. Það er ekki okkar hlutverk að tryggja samfellu, samfellunnar vegna, heldur styðja við uppbygginguna.“

„Markmið Kríu er að byggja upp fjármögnunarumhverfið. Það er ekki okkar hlutverk að tryggja samfellu, samfellunnar vegna, heldur styðja við uppbygginguna,“ segir Kristinn Árni.

Hann segir jafnframt að ef það færi svo að fimm vísisjóðir fari af stað í ár bendi það til þess að fjárfestar hafi mikla trú á eignaflokknum og telji að nýsköpunarumhverfið hér sé þannig úr garði gert að það sé skynsamlegt að fjárfesta í því.

Óttast ekki að það verði of margir vísisjóðir

Örn var spurður sömu spurningar og Kristinn Árni. „Ég óttast ekki að það verði of margir vísisjóðir. Það er einmitt styrkleikamerki að hjá þeim sjóðum sem nýlega hafa komið fram eða eru í burðarliðnum má sjá greinileg merki um aukna sérhæfingu. Sjóðirnir og rekstraraðilar þeirra eru með mismunandi áherslur og koma að einstökum verkefnum með ólíkum hætti. Þetta er mjög jákvæð þróun sem felur í sér að tækifærin til samstarfs einstakra sjóða aukast, þar sem sjóðirnir og fjárfestar styðja hver við annan á grundvelli mismunandi styrkleika. Almennt talað lít ég ekki svo á að íslensku vísisjóðirnir séu að keppa sín á milli um einstakar fjárfestingar. Vegferðin í uppbyggingu sprotafyrirtækja er löng og áhættusöm og því eru það sameiginlegir hagsmunir sprotafyrirtækisins og fjárfesta að vinna frekar saman í einstökum verkefnum.

Á undanförnum árum hafa orðið til nokkrir sérhæfðir rekstraraðilar vísisjóða og umhverfið hefur þroskast mikið. Þessir aðilar hafa öðlast reynslu og þekkingu í að nýta sem best það fjármagn sem sjóðunum er treyst fyrir. Mér finnst það mjög góðs viti að sjá rekstraraðila vera að safna í sjóð tvö eða jafnvel þrjú. Fjárfestingar sjóðanna munu koma til með að jafnast út og dreifast betur á fjárfestingartímabil þeirra. Og það er að myndast ákveðinn taktur í þessari starfsemi, líkt og við þekkjum erlendis, þar sem öflugir rekstraraðilar koma nýjum sjóð á legg þegar fjárfestingartíma fyrri sjóðs lýkur,“ segir hann.

Vilja fá fleiri fjárfesta í nýsköpun

Markmið Kríu er að styðja við uppbyggingu á sérhæfðu fjármögnunarumhverfi fyrir hugvitsdrifin fyrirtæki. Þannig að hér verði sérhæfð fyrirtæki í rekstri vísisjóða með góða rekstrarsögu, þekkingu og tengsl við erlenda aðila. Þetta segir Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stjórnarformaður sjóðsins.

Hann segir að hérlendis séu það einkum lífeyrissjóðir sem leggi vísisjóðum til fé en erlendis sé baklandið mun breiðara. Til að auka áhuga annarra fjárfesta verður þeim boðið að kaupa Kríu út á fyrirfram ákveðnum kjörum, eins og reynst hafi vel í Ísrael og víðar. „Vonandi mun það stuðla að því að við fáum fleiri tegundir af fjárfestum í hugvitsdrifin fyrirtæki eftir einhver ár,“ segir Kristinn Árni.

Allt að 40 milljarðar í nýsköpun á fimm árum

Ætla má að fimm vísisjóðir verði fullfjármagnaðir og hefji starfsemi á þessu ári, samkvæmt Samtökum iðnaðarins. „Umfang þessara sjóða gæti verið nálægt 40 milljörðum króna þannig að með þeirri fjárhæð verður fjárfest í sprotum, aðallega á Íslandi, á næstu þremur til fimm árum,“ segir í greiningu samtakanna. Vísisjóðir fjármagna nýsköpunarfyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Brunnur Ventures hleypti nýverið af stokkunum sínum öðrum sjóði sem er 8,3 milljarðar að stærð. Kvika eignastýring kom á fót vísisjóðnum Iðunni sem leggja mun áherslu á lífvísindi og heilsutækni. Áskriftarloforð námu 6,7 milljörðum króna eftir fyrstu umferð söfnunar en síðari umferð söfnunar lýkur í september.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Eyrir Venture Management vinni að því að koma á fót sínum öðrum sjóði og að Bala Kamallakh­aran sem rekur Iceland Venture Studio vilji stofna vísisjóði. Heimildir Markaðarins herma að Crowberry Capital og Frumtak Ventures séu einnig með nýja vísisjóði á prjónunum.