Neytendasamtökin hafa lagt inn beiðni til sýslumanns um að lögbann verði sett á starfsemi Almennrar innheimtu ehf. sem sér um að innheimta skuldir smálánafyrirtækja í eigu Ecommerce 2020. Ecommerce 2020 rekur vörumerkin Kredia, Hraðpeninga, 1909, Smálán og Múla.

„Við erum búin að herða róðurinn mjög gegn smálánafyrirtækjunum og barst liðsstyrkur frá VR um daginn sem gerði okkur kleift að skoða þetta betur. Á grunni laga um lögbönn og dómsmál fyrir heildarhagsmuni neytenda þá gripum við til þessa ráðs að fara fram á lögbann hjá sýslumanni,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. „Við teljum að Almenn innheimta og Gísli Kristbjörn Björnsson lögmaður séu að innheimta ólöglegar skuldir og leggi ólögleg gjöld á innheimtu þeirra.“

Breki telur að úrskurður sýslumanns muni liggja fyrir eftir viku eða tvær. „Við vonum það besta.“

Líkt og fram hefur komið í umfjöllun Fréttablaðsins að undanförnu er eCommerce 2020 hætt að veita lán á vöxtum yfir lögbundnu hámarki. Er það þó afstaða Ondřej Šmakal, forstjóra fyrirtækisins, að lánin séu ekki veitt á Íslandi heldur í Danmörku og því gildi um þau dönsk lög. Sagði Gísli Kr. Björnsson, stjórnandi Almennrar innheimtu, að vextirnir hefðu verið lækkaðir af kröfu Almennrar innheimtu.

Breki segir að þrátt fyrir þetta sé enn verið að innheimta ólöglega. Neytendasamtökin hafa reynt ýmislegt í baráttu sinni við starfsemi smálánafyrirtækjanna. Þar sem Almenn innheimta er í eigu lögmanns eru þau undir eftirliti Lögmannafélagsins ekki Fjármálaeftirlitsins, Breki segir þá ekkert hafa aðhafst í málinu. Breki segir að almennt séu lög um innheimtu mjög góð nema þegar kemur að þessu atriði. „Við erum búin að reyna ýmislegt. Þegar lögmaður eins og Gísli Kr. Björnsson er með lögheimtu þá er þetta villta vestrið.“

Þá hafi úrskurðarnefnd lögmanna vísað málinu frá þar sem ekki var um kvörtun eins aðila að ræða. „Það er erfitt fyrir einstaklinga að standa einir, vera kannski nafngreindir, og rétta upp hönd og segjast hafa tekið smálán,“ segir Breki. „Það tekur enginn smálán með gleði. Við höfum fengið hátt í tvö hundruð mál inn á okkar borð, það er enginn sem vill vera sá fyrsti til að stíga fram þó við séum oft með alveg borðleggjandi mál.“