Markaðsvirði keppinauta Marels, sem skráðir eru í kauphallir erlendis, lækkaði um 20-30 prósent á liðnu ári. Ef markaðsaðstæður verða með sama hætti kann að vera að tvískráning Marels muni ekki vera hluthöfum jafn happadrjúg og vonir stóðu til. Að sama skapi hækkaði gengi Marels um 15 prósent í krónum talið en fjögur prósent mælt í evrum. Verðkennitölur Marels eru um 15-20 prósent lægri en stórra keppinauta. Þetta kemur fram í nýju verðmati frá Hagdeild Landsbankans, sem ritað er á ensku.

Að því sögðu, starfi Marel á markaði þar sem mikið sé um minni fyrirtæki en þau hafi verið að sameinast. Tvíhliðaskráning gæti liðkað fyrir sameiningum fyrir Marel og mögulega vakið frekari athygli á fyrirtækinu hjá stærri keppinautum sem hafi hug á að sameinast eða taka yfir reksturinn. Auk þess yrði það líklegra að fjárfestar, sem taki félög yfir, myndu beina sjónum sínum að því.

Loks, segir í verðmatinu, ættu fjárfestar sem reiknað hafa með að gengi hlutabréfa Marels yrði stöðugra í erlendri kauphöll en í þeirri íslensku að endurskoða þá afstöðu af því að að jafnaði hafi gengi helstu keppinauta sveiflast mun meira á markaði á undanförnum fimm árum.


Forsvarsmenn Marels hafa sagt að stefnt sé að því að skrá félagið tvíhliða í erlenda kauphöll. Til skoðunar er skráning í Amsterdam, Kaupmannahöfn eða London. Líklegt er að niðurstaðan verði kynnt á aðalfundi í ár ásamt ósk um að auka hlutaféð um 15 prósent til að styðja við skráninguna. Landsbankinn telur líklegast að félagið verði skráð á markaði í Amsterdam eða Kaupmannahöfn.

Landsbankinn mælir með kaupum í Marel. Verðmatið hækkaði úr 456 krónum á hlut í 466 en í evrum talið lækkaði það um 4 prósent. Mat Landsbankans var 27 prósent hærra en gengi á markaði við birtingu matsins á mánudag.