Hrönn Óskarsdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Árnasona en hún keypti stofuna um áramótin. Undanfarið hefur hún ásamt samstarfsfólki sínu komið að undirbúningi þjónustuskólans Ritz-Carlton sem verður haldinn á fimmtudaginn. Hrönn segir að það séu breyttar aðstæður í auglýsingageiranum en í þeim felist einnig tækifæri.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ferðalög eru ofarlega á lista hjá mér. Mér finnst mikilvægt að fara með fjölskylduna reglulega til útlanda í frí, það styrkir fjölskylduböndin. Það er jafn mikilvægt að fara í frí bara með maka og reynum við að gera það reglulega. Ég er mikil félagsvera og á mikið af skemmtilegum vinum sem ég reyni að hitta mjög reglulega. Það er fátt sem jafnast á við gott kvöld með góðum vinum.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Snúsa einu sinni eftir að vekjaraklukkan hringir en kemst ekki upp með annað en að fara á fætur eftir næstu hringingu þar sem ég sé um að vekja alla á heimilinu. En þessar aukamínútur í svefni verða til þess að ég þarf að hafa mig til á methraða og hleyp út með örverpið á eftir mér. Skutla drengnum í leikskólann og svo tekur morguntraffíkin við. Að komast úr Kópavoginum niður í miðbæ á morgnana er ákveðinn skóli í þolinmæði, en fyrsti kaffibolli dagsins niðri á stofu með samstarfsfólki mínu bætir upp fyrir það.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Þær bækur sem hafa mest áhrif á mig eru ævisögur og frásagnir fólks sem hefur á einhvern hátt verið beitt óréttlæti og/eða ofbeldi. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað mannskepnan getur verið grimm. Sama hvað mér finnst erfitt að lesa svona bækur þá sæki ég samt í það.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin undanfarin misseri?

Að kaupa auglýsingastofuna Árnasyni um síðustu áramót og takast á við ábyrgðina sem fylgir því að vera eigandi, en áður hafði ég verið framkvæmdastjóri stofunnar og vissi því út í hvað ég var að fara.

helstu drættir.PNG

Hvað áskoranir og tækifæri eru fram undan í auglýsingageiranum?

Það eru breyttar aðstæður í auglýsingageiranum. Auglýsingastofur eru yfirleitt fljótar að finna fyrir niðursveiflu í þjóðfélaginu og við fundum fyrir því þegar hjólin fóru að snúast hægar fyrrihluta árs og fyrirtæki fóru að halda að sér höndum. Það er alltaf áskorun að fara í gegnum niðursveiflutímabil en á sama tíma er það hollt því það þvingar fyrirtæki til þess að fara í sjálfsskoðun og fara yfir allan reksturinn, hagræða og finna nýjar lausnir og nálganir. Þetta heldur manni á tánum sem er mikilvægt því það kemur alltaf eitthvað gott út úr því. Okkar viðskiptavinir hafa flestir haldið sínu striki. Við höfum til að mynda hannað allar umbúðir fyrir Nóa Síríus síðasta áratuginn og súkkulaði á alltaf við, hvort sem það er kreppa eða góðæri þannig að það er engin breyting þar á. Við erum því búin að vera heppin og siglum vonandi út úr þessu án mikilla erfiðleika.

Við hjá Árnasonum horfum á þessar aðstæður sem tækifæri. Við erum mjög hentug stærð á stofu fyrir svona árferði en hjá okkur starfa 12 starfsmenn sem allir eru sérfræðingar á sínu sviði með áratuga langa reynslu. Við erum nógu lítil til þess að geta veitt persónulega þjónustu og sinnt vel hverjum viðskiptavini fyrir sig en á sama tíma nógu stór til þess að sinna öllu því sem stórar stofur hafa upp á að bjóða. Við ætlum að halda okkar striki, halda vel utan um fyrirtækið, starfsfólkið og okkar frábæru viðskiptavini. Við höldum áfram að fylgjast með því hvað er að gerast á markaðinum og reynum að þróast í takt við það.

Ef þú þyrftir velja allt annan starfsframa, hver yrði hann?

Mig langaði alltaf að verða barnasálfræðingur en ég veit að ég hefði aldrei lært að takast á við erfið mál þar sem börn eru beitt ofbeldi og misrétti. Ég myndi frekar gera ógagn en gagn. En ég dáist að fólki sem leggur þetta fyrir sig og getur veitt börnum faglega aðstoð.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég sé mig fyrir mér í auglýsingageiranum hvernig sem hann á eftir að þróast á þessum tíu árum. En til þess að það geti orðið þá er mikilvægt að fylgjast með hvert markaðurinn er að fara og taka nýrri tækni og tækifærum með opnum hug. Annars ætlar örverpið mitt sér að verða atvinnumaður í fótbolta, ef hans draumur rætist þá verð ég kannski bara fótboltamamma í útlöndum eftir tíu ár. Hver veit!