Samtök atvinnulífsins fara fram á að Seðlabanki Íslands grípi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli, til að standa vörð um sjálfstæði Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og hag sjóðsfélaga. Seðlabankinn þurfi að koma í veg fyrir afskipti VR af ákvarðanatöku stjórnar sjóðsins og tryggja þannig að faglega verði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við hlutafjárútboð Icelandair.

Þetta kemur fram í bréfi sem Samtök atvinnulífsins hafa sent Unni Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Í bréfinu rifja samtökin upp að fulltrúaráð VR sumarið 2019 hefði afturkallað umboð stjórnarmanna VR í stjórn stjórnarmanna og samþykkt tillögu um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Var það gert vegna samþykktar stjórnar sjóðsins um ákvörðun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um.

Enn fremur hafi stjórn VR sent frá sér yfirlýsingu 17. Júlí síðastliðinn vegna málefna Icelandair. Þar var þeim tilmælum beint til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn sjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hafi staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

Þá hafi formaður Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagt í viðtali við Fréttablaðið sama dag að stjórnarmönnum VR í sjóðnum sem ekki færu eftir tilmælum VR yrði einfaldlega skipt út eins og áður hafi verið gert.

„Með yfirlýsingu sinni frá 17. júlí er stjórn VR að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum og þeim fyrirtækjum sem hann er hluthafi í þvert á lög, reglur og góða stjórnhætti. Virðist þetta nú vera orðinn árviss viðburður,“ segir í bréfi Samtaka atvinnulífsins.

Samtökin ítreka að lögum samkvæmt sé Lífeyrissjóður verzlunarmanna ekki í eigu eða undir stjórn VR heldur sé hann til fyrir sjóðsfélaga hans. Stjórnarmenn eigi að vera sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart öllum, þar á meðal þeim sem tilnefna þau í stjórn, og fara að öllum lögum og reglum.

„Með yfirlýsingunni sýnir VR yður og Seðlabankanum algera lítilsvirðingu og lætur varnaðarorð yðar sem vind um eyru þjóta,“ bæta samtökin við. Augljóst sé að afskipti af kjaraviðræðum falli ekki að tilgangi sjóðsins samkvæmt lögum og samþykktum hans. Honum sé ekki heimilt að taka fjárfestingaákvarðanir á slíkum grundvelli enda fari það í bága við hagsmuni sjóðsfélaga.

„Er þess óskað að Seðlabankinn grípi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga og þannig tryggja að faglega verði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við hlutafjárútboð Icelandair.“

Þá benda samtökin á að ef Fjármálaeftirlitið telur að starfsemi lífeyrissjóðs brjóti gegn ákvæðum laganna og staðfestum samþykktum lífeyrissjóða eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust geti það lögum samkvæmt veitt viðkomandi sjóði hæfilegan frest til úrbóta. Sé brot framið í þágu lögaðila sé heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig að gera lögaðilanum sekt.