Hæstiréttur Þýskalands hefur hótað því að koma í veg fyrir kaup Seðlabanka Evrópu á þýskum ríkis­skuldabréfum, sem gæti veikt aðgerðir bankans til að bregðast við samdrætti í Evrópu vegna kóróna­faraldursins.

Dómstóllinn skipaði þýskum stjórnvöldum og þinginu að tryggja að seðlabankinn framkvæmdi „hlutfallsmat“ á víðtækum skuldabréfakaupum sínum til að tryggja að áhrif aðgerðarinnar á hagkerfið og ríkisfjármál væru í samræmi við markmið peningastefnu bankans.

Financial Times greinir frá því að seðlabankinn hafi þrjá mánuði til að framkvæma slíkt mat, annars verði komið í veg fyrir frekari kaup á þýskum skuldabréfum.

Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir 2,2 billjónir evra frá árinu 2014 til þess að viðhalda verðbólgu en stefna bankans hefur verið umdeild í Þýskalandi. Gagnrýnendur segja að bankinn fari þannig út fyrir heimildir sínar með því að fjármagna ríkisstjórnir með ólöglegum hætti.

Á síðustu vikum hefur seðlabankinn stóraukið skuldabréfakaup til þess að milda efnahagsleg áhrif kórónafaraldursins.

Í dómi hæstaréttarins, sem er staðsettur í Karlsruhe, kom fram að þýskum stjórnvöldum bæri skylda til að grípa í taumana miðað við það hvernig skuldabréfakaup seðlabankans eru framkvæmd í dag.

Stefnendurnir – hópur 1.750 manns – höfðuðu málið árið 2015 en það fór fyrir Dómstól Evrópusambandsins sem dæmdi seðlabankanum í hag árið 2018. Málið fór aftur til hæstaréttar Þýskalands sem hafnaði rökum fyrrnefnds dómstóls og sagði þau ekki halda vatni.

Með því að hafna rökum Dómstóls Evrópusambandsins hefur dómstóllinn í Karlsruhe velt upp veigamiklum spurningum um beitingu Evrópulöggjafar.

„Þetta er fyrsta tilfellið þar sem þýskur dómstóll segir að dómur Dómstóls Evrópusambandsins hafi ekki lögsögu,“ segir Panos Koutrakos, prófessor í Evrópurétti við háskólann City í London, í samtali við Financial Times.

Hæstirétturinn gaf margar ástæður fyrir því af hverju Seðlabanki Evrópu hefði farið út fyrir heimildir sínar en sagði jafnframt að ekki væri unnt að ákvarða hvort seðlabankinn hefði brotið gegn Evrópulöggjöfinni án frekari upplýsinga um hvernig bankinn samrýmdi áhrif skuldabréfakaupanna og markmið peningastefnunnar.

Clemens Fuest, forstöðumaður hagfræðistofnunarinnar Ifo í Mün­chen, segir að höfnun hæstaréttar Þýskalands á rökum Dómstóls Evrópusambandsins „lesist eins og stríðsyfirlýsing“.

Dómurinn gæti greitt götuna fyrir málaferli á hendur Seðlabanka Evrópu vegna nýlegrar aðgerðar (PEPP) sem felur í sér stóraukin skuldabréfakaup bankans til að bregðast við samdrætti vegna kórónafaraldursins.

„Þetta er stóra áhættan,“ segir Vítor Constâncio, fyrrverandi yfirmaður hjá Seðlabanka Evrópu, sem telur að dómstóllinn hafi gert „fáránlegan greinarmun á peningastefnu og efnahagsstefnu“.

„Ný dómsmál vegna PEPP munu koma í kjölfarið,“ bætir hann við.

Richard McGuire, hjá Rabobank, segir að dómurinn sé „enn ein hindrun sem stendur í vegi fyrir samstöðu í kórónakrísunni“.

„Við vissum að það væru pólitískar hindranir í tengslum við skiptingu kostnaðar milli sambandsríkjanna og nú eru einnig lagalegar hindranir,“ bætir McGuire við.