Innlend kortavelta heimilanna í desember jókst um 6 prósent milli ára á föstu verðlagi, samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær. Veltutölurnar eru merki um að jólaverslun landsmanna hafi verið kröftug þrátt fyrir sóttvarnaaðgerðir. Kortaveltan gefur alla jafna góða vísbendingu um þróun einkaneyslu, stærsta einstaka undirliðs landsframleiðslunnar, og mögulegt er að samdráttur í einkaneyslu verði minni en Seðlabanki Íslands hefur spáð.

„Þetta er sambærileg aukning og í nóvember en mun betri niðurstaða en í október og hvað þá í apríl, þegar áþekkar sóttvarnaráðstafanir voru í gildi,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við Fréttablaðið.

Innlendri kortaveltu tókst hins vegar ekki að vega á móti 47 prósenta samdrætti í kortaveltu erlendis, svo heildarkortavelta Íslendinga dróst saman um 3 prósent milli ára í desember.

graf2.JPG

„Innlend kortavelta ber þess lítil merki – að minnsta kosti enn sem komið er – að atvinnuleysi sé í sögulegum hæðum. Það má líklega að einhverju leyti rekja til tvískiptingar vinnumarkaðar, það er að segja þeir sem verða ekki fyrir atvinnumissi finna í sjálfu sér lítið fyrir efnahagsþrengingunum nema í gegnum ferða- og samkomutakmarkanir.“

Erna segir að veltutölurnar komi ekki beint á óvart. Fréttaflutningur í desember hafi gefið til kynna að kraftur yrði í jólaverslun og langar raðir hafi myndast í verslunarmiðstöðvum. Augljósasta vísbendingin var hins vegar væntingavísitala Gallup, sem náði hæsta gildi sínu frá því að COVID-19 kom að landi.

„Það hefur sýnt sig að innlend neysla Íslendinga virðist sérstaklega næm fyrir væntingum þjóðarinnar, sem fylgt hafa þróun kórónaveirufaraldursins. Margir fylgdust með í beinni útsendingu þegar fyrstu skammtar bóluefnis komu til landsins rétt fyrir áramót og fréttaflutningur var á þá leið að betri tímar væru fram undan,“ segir Erna.

„Í sjálfu sér er það enn þá staðan, en ef marka má nýjustu fréttir gæti þetta orðið nokkuð langdregnari endir en margir væntu í desember, sem gæti endurspeglast í væntingum heimilanna í janúar,“ bætir hún við.

graf1.JPG

Kortaveltan gefur alla jafna góða vísbendingu um þróun einkaneyslu, stærsta einstaka undirliðs landsframleiðslunnar. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst heildarkortavelta Íslendinga saman um 6 prósent milli ára. Hagspá Arion banka, er kom út í október, gerði ráð fyrir 5,7 prósenta samdrætti í einkaneyslu á fjórðungnum en Erna segir að miðað við kortaveltutölurnar sé hugsanlegt að samdrátturinn verði lítils háttar minni.

„Ef við gefum okkur til einföldunar að einkaneyslan fylgi kortaveltunni og dragist saman um tæp 6 prósent þýðir það að einkaneyslusamdráttur ársins 2020 mælist 4 prósent,“ segir Erna og bendir á að nóvemberspá Seðlabankans geri ráð fyrir 5,5 prósenta samdrætti í einkaneyslu á árinu.

„Það bendir til þess að einkaneyslan hafi verið nokkuð kraftmeiri en Seðlabankinn spáði. Þetta er vissulega jákvæð niðurstaða fyrir hagkerfið en maður veltir fyrir sér hvaða áhrif þessar tölur muni hafa á ákvarðanir peningastefnunefndar sem hittist næst í febrúar,“ segir Erna.

Velta raf- og heimilistækja jókst um 41 prósent

Samkvæmt gögnum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst heildarvelta verslana í desember um 22 prósent milli ára. Þar af nam aukningin í netverslun heilum 159 prósentum.

Sundurliðun á desembertölunum sýnir 23 prósenta aukningu milli ára hjá stórmörkuðum og dagvöruverslunum. Mest var aukningin hjá raf- og heimilistækjaverslunum, eða um 41 prósent. Fataverslanir höfðu 22 prósenta aukningu og verslanir með heimilisbúnað 14 prósent.

Gögnin sýna áframhald á miklum veltuvexti hjá verslunum.

Samkvæmt nóvembertölum rannsóknasetursins jókst velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum um 26,7 prósent samanborið við fyrra ár. Þá jókst velta í raf- og heimilistækjaverslunum um 71 prósent milli ára og 29 prósent í fataverslunum.

Þróunin síðustu tvo mánuði ársins gæti verið þýðingarmikil fyrir afkomu smásölurisanna Haga og Festar.