KPMG hefur gengið frá kaupum á ráðgjafarfyrirtækinu CIRCULAR Solutions, sem hefur á stuttum tíma skipað sér í fremstu röð í ráðgjöf og þjónustu á sviði sjálfbærni og sjálfbærra fjármála.

CIRCULAR Solutions hóf starfsemi í byrjun árs 2018 með þá sýn að flýta ferlinu í átt að sjálfbærni með því að auðvelda ákvarðanatöku með bættri viðskiptagreind og vísindalegum aðferðum og búa þannig til virði fyrir hagkerfið, atvinnulífið, umhverfið og samfélagið í heild. Starfsmenn CIRCULAR munu hefja störf hjá KPMG nú um áramótin.

KPMG hefur á undanförnum misserum byggt upp teymi og sérþekkingu til að aðstoða viðskiptavini sína við að setja sér og ná markmiðum um aukna sjálfbærni. CIRCULAR kemur með framúrskarandi þekkingu og reynslu inn í þetta teymi sem gerir KPMG að leiðandi fyrirtæki á Íslandi í ráðgjöf og þjónustu á sviði sjálfbærni og sjálfbærra fjármála.

Sjálfbærni er þegar orðin mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila sem vilja vera samkeppnishæfir, hvort sem um ræðir tekjur, fjármagn eða starfsfólk, og hafa almenn jákvæð áhrif á samfélag sitt og umhverfi. Með heildstæðri nálgun á þessi mál er hægt að ná fram kostnaðarhagkvæmni, draga úr rekstraráhættu og auka virði vöru og þjónustu." segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Meðal verkefna sem KPMG og CIRCULAR hafa unnið með sínum viðskiptavinum er undirbúningur að útgáfu grænna og félagslegra skuldabréfa, mótun og innleiðing sjálfbærnistefnu, markmiðasetning, áhættu- og mikilvægisgreiningar, lífsferils- og virðiskeðjugreiningar, innleiðing á hringrásarhagkerfinu, áreiðanleikakannanir, staðfesting á sjálfbærniupplýsingum, skýrslugjöf og samskipti við hagaðila.

„Við hjá CIRCULAR komum ný inn á markaðinn árið 2018 og höfum síðan notið mikils trausts og hjálpað mörgum stórum aðilum hér á landi á sinni vegferð til sjálfbærni. Við hlökkum til að halda því áfram sem hluti af öflugu teymi KPMG, með breiðari nálgun en áður og með stuðningi frá KPMG á alþjóðavísu sem setur okkur í lykilstöðu til að innleiða bestu starfshætti í vegferð Íslands til sjálfbærni. Nú er rétti tímapunkturinn fyrir þessi umskipti hjá okkur, því umfang þessa sviðs, sjálfbærni og ófjárhagslegra upplýsinga, fer vaxandi, kröfur aukast og regluverk verður sífellt flóknara,“ segir Bjarni Herrera, framkvæmdastjóri CIRCULAR.

„Aukin áhersla á sjálfbærni í starfsemi og stefnumörkun felur í sér mikil tækifæri fyrir atvinnulífið og þau fyrirtæki sem gera það með skipulögðum og markvissum hætti eru líklegri til að ná árangri á komandi árum og áratugum. Sá hópur viðskiptavina sem vill laga stefnu sína og starfsemi að málefnum sem tengjast sjálfbærni fer ört vaxandi og KPMG hefur lagt áherslu á að vera í fararbroddi í ráðgjöf á því sviði. Við erum hæstánægð að fá CIRCULAR til liðs við okkur því saman verðum við í enn betri stöðu til að veita framúrskarandi þjónustu,“ segir Helga Harðardóttir meðeigandi hjá KPMG.