Kostnaður sem fellur til hjá flugfélaginu Icelandair vegna truflana á leiðarkerfi hefur lækkað um 14 milljónir dollara á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins. „Okkur hefur tekist að bæta stundvísi mikið þrátt fyrir þá truflun sem orðið hefur á rekstrinum vegna kyrrsetningar Boeing MAX 737 flugvélanna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

„Truflanir og seinkanir í leiðarkerfi valda auknum kostnaði víða í starfseminni. Til að mynda getur þurft að kalla út viðbótar áhafnir og greiða farþegum bætur. Auk þess verða farþegar ánægðari þegar flugfélög eru stundvís sem hefur jákvæð áhrif á tekjuöflun þeirra,“ segir hann.

Fram kemur í uppgjöri sem birtist í gær að rekstur Icelandair Group hafi batnað. Bogi segir að til viðbótar við bætta stundvísi hafi verið ráðist í hagræðingar og leitað leiða til að auka tekjur.

Icelandair gekk frá öðru samkomulagi við Boeing í gær um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX véla

Annað samkomulag við Boeing

Í uppgjörinu kemur janframt fram að Icelandair hafi gengið frá öðru samkomulagi við Boeing í gær um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX flugvéla. Það er til viðbótar við það samkomulag sem félagið gerði við framleiðandann í þriðja ársfjórðungi. Viðræður við Boeing um frekari bætur halda áfram eftir sem áður.

„Þetta er jákvætt skref sem dregur úr neikvæðum áhrifum af kyrrsetningunni á rekstur félagsins,“ segir Bogi Nils. Hann segir að samningaviðræðunum sé ekki skipt í nokkrar hluta heldur hafi þær þróast með þessum hætti.

„Það er ekki hægt að upplýsa um áhrif samningsins á uppgjör Icelandair Group,“ segir hann.

Óþarfi að auka hlutafé

Hagfræðideild Landsbankans segir í viðbrögðum við uppgjöri Icelandair Group að ef afkomuspá fyrir fjórða ársfjórðung rætist sé samstæðan komin fyrir vind eins og sakir standa hvað varð áhyggjur af litlu handbæru fé og þar með áhyggjum af því hvort félagið þurfi að sækja fé til hluthafa.

„Það hefur ekki verið til skoðunar á vettvangi Icelandair Group að sækja aukið hlutafé.“

„Það hefur ekki verið til skoðunar á vettvangi Icelandair Group að sækja aukið hlutafé. Hlutafé var aukið í vor um 5,6 milljarða króna með kaupum bandaríska fjárfestingasjóðsins PAR Capital Management á 11,5 prósenta hlut.

Við höfum stefnu hvað varðar stöðu lausafjár og höfum verið innan marka í allt ár. Efnahagsreikningurinn er sterkur bæði hvað varðar lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu,“ segir Bogi Nils.

„Það eru mörg flugfélög að styrkja rekstur sinn í ferðaþjónustu um þessar mundir,“ segir Bogi Nils.
Fréttablaðið/Anton Brink

Rekstur Iceland Travel gengur vel

Í febrúar var upplýst að til skoðunar væri að selja fyrirtækið Iceland Travel. „Sú vinna var ekki hafin að athuga hver áhugi fjárfesta væri á Iceland Travel. Söluferlið hófst því ekki með formlegum hætti. Það hefur mikið breyst í umhverfinu frá því í febrúar og því var ákveðið að bíða með sölu á félaginu.

Rekstur Iceland Travel hefur gengið vel á fyrstu níu mánuðum ársins. Jafnvel þótt tekjur hafi dregist mikið saman hefur hagnaður aukist á milli ára. „Að einhverjum tíma liðnum munum við meta aftur stöðuna hvort rétt sé að eiga félagið til frambúðar eða selja það,“ segir Bogi Nils.

„Það eru mörg flugfélög að styrkja rekstur sinn í ferðaþjónustu um þessar mundir.“

Nýlega markaði Icelandair Group þá stefnu að einbeita sér að rekstri flugfélags og seldi við það tækifæri meirihluta í Icelandair Hotels. „Iceland Travel getur passað í þá sýn að einbeita sér að flugrekstri. Það eru mörg flugfélög að styrkja rekstur sinn í ferðaþjónustu um þessar mundir. Við erum að vega og meta kosti þess,“ segir hann.