Kostnaðarhlutfall fjármálasviða hér á landi er hærra en víðast hvar erlendis. Samkvæmt greiningu frá Deloitte í Bandaríkjum er það viðmið að kostnaðarhlutfall fjármálasviðs eigi að vera 1-2 prósent af tekjum en á Íslandi er áætlað að það hlutfall sé 4-5 prósent. Þetta segir Sunna Dóra Einarsdóttir, meðeigandi hjá Deloitte og sviðsstjóri Við­skiptalausna, en bætir við að stærðarhagkvæmni hafi vissulega áhrif.

„Það er nauðsynlegt að færa kostnaðarhlutfallið nær erlendum viðmiðum. Til að það sé gerlegt verða fyrirtækin að leggja meiri áherslu á stafrænar lausnir,“ segir Sunna og bætir við að sú menning sem sé til staðar innan fyrirtækjanna hafi mikið að segja varðandi hversu langt á leið í hinni stafrænu vegferð fyrirtækin séu komin.

„Þetta snýr að því að í fyrirtækjunum þarf að vera vilji til að læra nýja hluti, hæfni til að taka upp ný vinnubrögð og að sama skapi að starfsfólki sé gefið tækifæri til að læra og þróast í starfi. Það er virkilega mikið búið að breytast á síðustu árum þegar kemur að stafrænni þróun. Fjárhagskerfi eru búin að fara í gegnum stökkbreytingu á síðustu þremur til fimm árum og það þarf að nýta þessar nýjungar í kerfunum.“

Sunna segir að fjármálasvið hér á landi þurfi að verja meiri tíma í virðisskapandi verkefni. Erlendis sé það viðmið að 60 prósent af tíma fjármálasviða eigi að fara í virðisskapandi verkefni en með því er átt við til dæmis greiningar, áætlanagerðir og spár og 40 prósent eigi að fara í almennt reikningshald.

„Hér á landi virðast fara allt að 80 prósent af tíma fjármálasviða í almennt reikningshald, sem er oft vegna þess hve mikil handavinna er enn til staðar í þeim ferlum sem snúa að reikningshaldi og þannig aðeins 20 prósent í virðisskapandi verkefni. Það er þörf á að færa verkefnin úr því að vera handavinna og yfir í að vera virðisskapandi. Einnig hefur eftirspurn stjórnenda eftir fjárhagsupplýsingum í rauntíma aukist mikið á síðustu árum, sem getur reynst erfitt að anna án þess að nýta tæknina.“

Sunna bætir við að vissulega séu fyrirtæki úti með meiri skalanleika, þar séu stærri fjármáladeildir og fleiri aðilar sem sjá um að innleiða stafræna þróun.„Fyrir okkur á Íslandi snýst þetta um að sníða okkur stakk eftir vexti og klára ákveðna hluti. Það má margt færa til betri vegar hér á landi og margt er hægt að gera án þess að ráðast í stórar fjárfestingar.“