Það má segja að nýafstaðnar kosningar hafi sannað eitt: Auglýsingar virka. Þetta segir Hrafn Gunnarsson, hugmynda- og hönnunarstjóri hjá Brandenburg. Auglýsingastofan vann ekki fyrir stjórnmálaflokk í kosningunum.

Hrafn segir að Framsóknarflokkurinn sé ótvíræður sigurvegari kosninganna. „Þau eru alltaf eins og vel smurð vél þegar kemur að kosningabaráttu og virðast alltaf ramba á réttu skilaboðin. Í ár kunnu þau að hafa hljómað eins og ákveðin uppgjöf fyrst, þegar maður heyrði „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ en því oftar sem maður heyrði þetta því betra varð það. Þau virðast hafa náð að fanga algjörlega það sem þau standa fyrir. Eru afslöppuð, geta unnið með öllum, ekki of mikið til hægri og ekki of mikið til vinstri.“

Vinstri græn lögðu upp með það, segir Hrafn, að sýna hversu manneskjulegir og jarðbundnir frambjóðendur þeirra séu. Katrín Jakobs­dóttir formaður virðist stýra landinu úr eldhúsinu heima hjá sér og frambjóðendur plokka rusl úr náttúrunni og versla í litlum hverfis­verslunum. „Auglýsingin virtist hitta í mark hjá flestum, þó svo sumum hafi fundist hún kannski ögn tilgerðarleg og mögulega eitthvað sem átti betur við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir hann.

Katrín Jakobs­dóttir, formaður Vinstri grænna.
Fréttablaðið/Ernir

Hrafn segir að auglýsingar Samfylkingarinnar hafi verið með svipuðu sniði. „Mjög tilfinningarík og mannleg og sannfærðu okkur um að Ísland væri draumalandið. Samfylkingin var greinilega mjög meðvituð um áhuga landsmanna á Kristrúnu Frostadóttur, því hún var nánast sú eina sem sást í auglýsingunum þeirra, og lék til að mynda stærra hlutverk en formaðurinn í sjónvarpsauglýsingu þeirra.“

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Sjálfstæðismenn kynntu okkur fyrir landi tækifæranna. „Það slagorð hafa þau líklega sótt sér vestur yfir haf. Nýsköpun var ofarlega á baugi hjá þeim sem og öðrum og svo var aldrei langt í loforðið um lægri skatta, auðvitað,“ bendir hann á.

Hrafn segir að Miðflokkurinn hafi reynt að vera á svipuðum nótum og Vinstri græn þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður hafi verið afslappaður heima hjá sér að vatnslita, skoða smámynt og endurraða Stjörnustríðsmódelum. „Ásamt því auðvitað að borða hrátt nautahakk. Miðflokkurinn hefur verið góður að nýta sér nýjustu tækni í sinni baráttu og hér var engin undantekning. Þeir kynntu til leiks Instagram-filter þar sem fólk gat sett sig í hlutverk Sigmundar og deilt um netheima. Og svo varð auðvitað „Ding, ding, ding. Ernu á þing“ klassík samstundis,“ segir hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Flokkur fólksins hafi verið nýjungagjarn og kynnti stefnu sína með gagnvirkum myndböndum á netinu. „Þau kynntu nýtt útlit sem var bara ansi gott,“ segir hann og nefnir að auglýsingarnar hafi náð vel til markhópsins. „Skemmtilegust fannst okkur auglýsingin þeirra um brauðmolana þar sem risi situr á Alþingishúsinu og hendir brauðmolum í fólkið,“ segir Hrafn.

Hann segir að frammistaða annarra flokka hafi ekki verið ýkja merkileg. Sumir hafi stært sig af því að nýta ekki krafta auglýsingafólks. „Árangurinn var líka eftir því.“

Framsókn hjá Hvíta húsinu

Framsókn hafði auglýsingastofuna Hvíta húsið sér til halds og trausts, Sjálfstæðisflokkurinn AtonJL, Vinstri græn Tvist, Samfylkingin vann sitt markaðsefni mestmegnis innanhúss en réð Cyrus í afmörkuð verkefni og Píratar unnu allt innanhúss, samkvæmt upplýsingum frá flokkunum. Fréttablaðið fékk ekki svör frá öðrum.