Hlutabréfaverð hefur farið lækkandi síðustu daga, meðal annars vegna þess að auknar líkur eru á að vinstristjórn taki við stjórnartaumunum í landinu, samkvæmt skoðanakönnunum. Undanfarna fimm daga hefur Úrvalsvísitalan lækkað um fjögur prósent. Á sama tíma hafa fjárfestar keypt verðtryggð skuldabréf í auknum mæli en í ljósi lágs vaxtastigs hafa margir fram að þessu fremur horft til hlutabréfakaupa.

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum, segir að nýjasta skoðanakönnun Maskínu virðist hafa hrint lækkunum af stað. Mögulega hafi væntingar farið að byggjast upp aðeins fyrr. Það kunni að fara að sjá fyrir endann á lækkunarhrinunni því í huga sumra fjárfesta sé verðlagning margra fyrirtækja álitleg.

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, segir að það sé ákveðin óvissa í loftinu sem valdi því að fjárfestar haldi að sér höndum og því lækki eignaverð. „Óvissan snýr að stjórnarmynstri eftir kosningar og hvað mismunandi stjórnarmyndanir muni hafa í för með sér,“ segir hann.

Valdimar horfir til tveggja þátta. „Annars vegar munu miklar breytingar á ákveðnum grunnþáttum hagkerfisins skapa mikla óvissu um framtíðarrekstur ýmissa fyrirtækja og erfitt verður að skipuleggja framtíðina sem gæti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar á fjármálamarkaði. Hins vegar gætu aukin útgjöld ríkissjóðs í ýmiss konar tilfærslur og greiðsluþátttöku skilað sér að öðru jöfnu í aukinni verðbólgu og þar af leiðandi hærri stýrivöxtum og mögulega aukinni útgáfu ríkissjóðs sem gæti hækkað verðbólguvæntingar sem og langtímakröfuna á skuldabréfamarkaði.“

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance.
Mynd/Aðsend

Hann segir að einnig verði að hafa í huga að samhliða þessum lækkunum sé umræða meðal annars í Bandaríkjunum um minnkandi stuðning Seðlabankans við eignamarkaði. Það hafi haft áhrif á erlenda hlutabréfamarkaði sem smitast til Íslands.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hjá Stefni, segir að oft sé erfitt að henda reiður á sveiflunum frá degi til dags. Erlendir markaðir hafi gefið aðeins eftir, olíuverð hafi hækkað skarpt síðustu daga og verðbólguþrýstingur sé nokkur erlendis. „Öflug viðspyrna og raskanir á aðfangakeðjunni, til dæmis í flutningum, eftir Covid-19 tekur í,“ segir hann.

Magnús Örn bendir á að stýrivextir hafi verið hækkaðir hérlendis fyrir hálfum mánuði og Seðlabankinn hafi rætt um frekari hækkanir. „Það má kannski segja að markaðurinn verði fréttadrifnari í aðdraganda kosninga og brothættari,“ segir hann og nefnir að það hafi líka gerst árið 2017 þegar markaðurinn hafi gefið eftir.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hjá Stefni.
Mynd/Aðsend

„Fjárfestum líður illa í óvissu og verr eftir því sem óvissan er meiri. En á sama tíma geta líka myndast góð fjárfestingatækifæri, það sanna dæmin. Umræðan um forsendur kjarasamninga er líka að verða fyrirferðarmeiri og á síðustu dögum hefur verið aukin aðsókn í verðtryggð skuldabréf.

Kosningaloforð, áherslur og kannanir geta spilað hlutverk en heilt yfir líta fjárfestar yfirvegað yfir sviðið. Stóra myndin hefur svo sem ekki breyst á markaðnum. Félögin skiluðu góðum uppgjörum í síðustu uppgjörslotu og margir álitlegir fjárfestingarkostir eru í Kauphöllinni enda horfur fínar. Fé leitar eftir sem áður í ávöxtun og mikið fé situr enn inni í félögum sem á eftir að skila til hluthafa. Það má ekki gleyma því að hlutabréf hafa hækkað skarpt undanfarið og ekki óeðlilegt að fjárfestar innleysi hagnað. Það lýsir skilvirkum markaði,“ segir Magnús Örn.