Kortavelta Íslendinga jókst um 24 prósent milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag, að því er fram kemur í nýrri samantekt Landsbankans. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands tæpum 79 milljörðum króna og jókst um tæp fjórtán prósent á milli ára. Kortavelta Íslendinga erlendis nam á sama tíma átján milljörðum króna og jókst um 106 prósent milli ára.

Sérfræðingar bankans segjast sá breytingar í innlendri neyslu þar sem kaup á þjónustu vegi nú hlutfallslega meira í aukningunni, enda ýmis þjónusta sem hafi verið ófáanleg þegar faraldurinn stóð sem hæst sé nú orðin aðgengileg að nýju.

Fram kemur í samantekt bankans að kaup Íslendinga á skipulögðum ferðum ferðaskrifstofa hafi tífaldast frá sama tíma í fyrra og kaup á þjónustu menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi hafi vaxið um nærri 150 prósent.

Á sama tíma mælist samdráttur í kortaveltu Íslendinga í mörgum verslunum. Mestur er samdrátturinn í áfengisverslunum þar sem kortavelta dróst saman um 20% að raunvirði milli ára. Í byggingarvöru-, raf- og heimilistækjaverslunum mælist einnig samdráttur en aukningin var mjög mikil í þeim verslunum þegar faraldurinn skall á og mælist kortaveltan enn sterk þó hún dragist nú saman milli ára.

Samhliða kraftmiklum vexti innanlands er talsverður vöxtur í neyslu Íslendinga erlendis þar sem ferðalög eru orðin algengari. Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru tæplega 40 þúsund talsins í október, sem er um 70% af því sem þær voru í október 2019. Kortavelta Íslendinga erlendis var hins vegar áþekk því sem sást í október 2019 miðað við fast gengi sem bendir til þess að fólk geri nú talsvert betur við sig en áður í utanlandsferðum, að því er segir í samantekt Landsbankans.