Kortavelta landsmanna i júní var sú næstmesta frá upphafi og skýrir velta utan landsteinanna öran vöxt milli ára.

Vaxandi svartsýni almennings og hægari vöxtur kaupmáttar hefur ekki enn sýnileg áhrif á neysluvilja. Þetta kemur fram í greiningu frá Íslandsbanka og segir þar jafnframt að líklegt sé að heimilin stigi á neyslubremsuna síðar á árinu.

Landsmenn straujuðu greiðslukort sín fyrri ríflega 113 milljarða króna í júní samkvæmt nýbirtum tölum frá Seðlabankanum. Veltan var þó minni en í maí þegar hún náði sögulegu hámarki.

„Að teknu tilliti til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortaveltan um 10,4% á milli ára í júnímánuði. Sé borið saman við júní árið 2019 áður en faraldurinn sló á neyslu landsmanna er aukningin 19% á þennan mælikvarða,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Fram kemur að vöxturinn milli ára skrifist fyrst og fremst á stóraukna veltu erlendis. Raunar hafi kortavelta skroppið saman innanlands um ríflega 2 prósent að teknu tilliti til verðbólguþróunar. Aftur á móti tvöfaldaðist veltan erlendis.

Landsmenn ferðaglaðir eftir faraldurinn

Eins og gefur að skilja tók ferðagleði Íslendinga dýfu eftir faraldurinn en hefur nú heldur betur rétt úr kútnum. Samkvæmt tölum Ferðamálastofnun fóru nærri 66 þúsund landsmenn af landi brott um Keflavíkurflugvöll í júnímánuði.

Hafa utanlandsferðir Íslendinga aðeins tvisvar sinnum mælst fleiri á þennan kvarða, í júnímánuðum 2016 og 2018.