Í október var vöxtur í kortaveltu milli ára líkt og síðustu mánuði. Það var erlenda kortaveltan sem bar upp vöxtinn en hún jókst um ríflega 100 prósent milli ára. Þetta er það sem kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka.

Í greiningunni segir að þessar tölur gefi góð fyrirheit um einkaneysluna sem mun að líkindum halda áfram að vaxa það sem eftir lifir árs.

„Samkvæmt nýbirtum kortaveltugögnum frá Seðlabankanum nam innlend kortavelta um 102 milljarða króna í október. Það samsvarar 31 prósent aukningu frá sama mánuði í fyrra og 16 prósent aukningu frá sama mánuði árið 2019. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta hins vegar um 24 prósent frá sama mánuði í fyrra. Kortavelta einstaklinga hefur aukist í hverjum mánuði á þennan mælikvarða frá því í mars síðastliðnum," segir í greiningunni.

Þá kemur einnig fram að mikill munur mælist enn á þróun kortaveltu innanlands og utanlands, eins og raunin hefur verið undanfarna mánuði.

„Erlenda kortaveltan hefur tekið við af innlendu kortaveltunni sem hélt nánast velli í hápunkti faraldursins. Nú í október jókst kortavelta innanlands um 14 prósent á meðan kortavelta erlendis jókst um 104 prósent að raunvirði frá sama mánuði 2020. Satt að segja er þetta vöxtur sem ekki hefur sést áður enda um óvenjulegar aðstæður að ræða þar sem erlend kortavelta lá nánast niðri stóran hluta síðasta árs."

Jafnframt segir að svo virðist sem neysla Íslendinga sé að glæðast með hverjum mánuðinum og sérstaklega á erlendri grundu.

„Það sést greinilega í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) þar sem velta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir var ríflega tífalt meiri í október en á sama tíma í fyrra og greinilegt að ferðahugur landans er mikill um þessar mundir."