Samkvæmt kortaveltugögnum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta ríflega 97 milljörðum í mars síðastliðnum. Það samsvarar 15,5 prósenta aukningu frá sama mánuði í fyrra en að teknu tilliti til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta um 11 prósent milli ára.

Kortavelta Íslendinga erlendis heldur uppi vextinum í marsmánuði líkt og verið hefur síðustu mánuði. Kortavelta innanlands jókst um ríflega 1 prósent að raunvirði milli ára en á sama tíma jókst kortavelta erlendis um 96 prósent að raunvirði. Þetta er er áframhald á þeirri þróun sem hefur verið upp á síðkastið og mun væntanlega halda áfram þar til áhrif faraldursins á neysluhegðun fjara smám saman út.

Hagfræðingar Íslandsbanka telja hins vegar að áhrif faraldursins á heildarneyslu Íslendinga hafi nú þegar fjarað út og er kortavelta nú orðin meiri en hún var fyrir faraldur á alla mælikvarða. Sé fyrsti fjórðungur þessa árs borinn saman við sama tíma árið 2019, það er fyrir faraldurinn, jókst innlenda kortaveltan um ríflega 11 prósent að raunvirði og erlenda kortaveltan um 1 prósent.

Úr verslun í þjónustu

Athyglisvert er að skoða frekara niðurbrot á gögnum kortaveltunnar sem Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir (RSV). Samkvæmt RSV jókst kortavelta í nær öllum flokkum á milli mánaða sem rímar við fyrrnefnd gögn Seðlabankans. Augljós breyting hefur þó orðið á neyslumynstrinu á milli ára. Ef marsmánuður er borinn saman við sama mánuð í fyrra dróst velta í innlendri verslun saman um tæplega 4% á meðan kortavelta í þjónustutengdum greinum jókst um 30 prósent.

Þetta kemur þó lítið á óvart þar sem takmarkanir vegna faraldursins voru með mesta móti á þessum tíma í fyrra og sérstaklega lagðist starfsemi í tilteknum þjónustutengdum greinum tímabundið af. Það er þó bæði áhugavert að heildarneyslan í faraldrinum hélt velli í stórum dráttum og neysluhegðunin breyttist umtalsvert á sama tíma.

Þetta sést nokkuð vel á sundurliðuðum gögnum um kortaveltuna í mars þar sem velta dróst saman á milli ára í flokkum eins og byggingarvöruverslunum (-19 prósent), áfengisverslunum (-29 prósent) og heimilistækjaverslunum (-5 prósent). Eins og flestir muna var fólk mikið heima við á þessum tíma og margir sem réðust í einhverskonar framkvæmdir á húsakynnum sínum eða nýttu ráðstöfunarfé sem ella hefði farið í utanlandsferðir eða þjónustukaup til þess að endurnýja tækjakost og húsbúnað heimilisins.

Á sama tíma er breytingin þveröfug í þjónustutengdri veltu. Ekki kemur mikið á óvart að velta í ferðaskrifstofum og ferðatengdum greinum margfaldaðist á milli ára (512 prósent) en auk þess jókst velta í öðrum slíkum flokkum líkt og gistiþjónustu (26 prósent), veitingum (24 prósent) og eldsneytis- og viðgerðarþjónustu (20 prósent) svo eitthvað sé nefnt.

Vöxtur einkaneyslu áfram í kortunum?

Kortavelta gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslu sem hefur tekið hressilega við sér að nýju eftir 3 prósent samdrátt árið 2020. Vöxtur einkaneyslu var 7,6 prósent að raunvirði á árinu 2021 samanborið við árið á undan og ef einkaneyslan er borin saman við árið 2019 nam vöxturinn 4,4 prósentum.

Hagfræðingar Íslandsbanka telja að einkaneysla á fyrsta ársfjórðungi hafi vaxið myndarlega og horfur séu á áframhaldandi vexti ákomandi mánuðum. Stríðið í Úkraínu hafir greinilega ekki haft teljandi áhrif á kortaveltu marsmánaðar þó að væntingar landsmanna hafi lækkað lítillega á milli mánaða í mars. Þeir telja þó að stríðið gæti með óbeinum hætti haft áhrif á einkaneyslu hér á landi þar sem aukin innflutt verðbólga muni að öllum líkindum draga úr kaupmætti heimilanna á næstunni. Framhaldið næsta kastið hvað einkaneyslu varðar velti því ekki síst á þróun verðbólgu næstu mánuði sem og kjarasamningum sem losna undir lok árs á stærstum hluta hins almenna vinnumarkaðar.