Auglýsingastofan Kontor Reykjavík hefur unnið til virtra alþjóðlegra verðlauna, Brand Impact Awards, fyrir herferð sína fyrir Kringluna. Það er tímaritið Computer Arts og vefsíðan Creative Bloq sem standa að verðlaununum. Veitt eru verðlaun fyrir verk sem þykja hafa skarað fram úr í heimi skapandi hönnunar og mörkunar (e. branding). Meðal sigurvegara Brand Impact Awards síðustu ára má nefna BBC, McDonalds, Carlsberg, Adidas, Airbnb og fleiri.

Sett jafnfætis stórum alþjóðlegum auglýsingastofum

„Við erum mjög þakklát fyrir þessa miklu viðurkenningu á störfum okkar á alþjóðlegum vettvangi. Það er mikill heiður fyrir litla auglýsingarstofu á Íslandi að fá slík verðlaun og vera sett jafnfætis stórum alþjóðlegum auglýsingastofum sem starfa fyrir heimsþekkt vörumerki,“ segir Sigrún Gylfadóttir, annar eigandi Kontor Reykjavík, í tilkynningu.

Sigrún Gylfadóttir og Alex Jónsson, stofnendur og eigendur Kontor Reykjavík.
Mynd/Aðsend

Auglýsingaherferð Kringlunnar vakti athygli fyrir snjalla og nýstárlega útfærslu og sýnir Kringluna sem verslunarmiðstöð í öðruvísi ljósi en vaninn er með slíkar verslanir. Litríkt og leikandi myndefnið þótti grípa augað, föndrað af kostgæfni og smáatriði sett fram á skemmtilegan hátt. Það sem vakti einna helst athygli voru jólaauglýsingar Kringlunnar þar sem vörum og jólagjafahugmyndum var raðað saman með tilvitnum í helgimyndir. Að búa til helgimyndir út frá neysluhyggju þótti djörf og frumleg nálgun.

Stofnuðu Kontor árið 2014

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík var stofnuð í lok árs 2014 af hjónunum Sigrúnu Gylfadóttur og Alex Jónssyni sem eru með áratuga reynslu af íslenskum auglýsingamarkaði. Á þessum stutta tíma frá stofnun hefur stofan hlotið fjölda tilnefninga og unnið til fjögurra alþjóðlegra verðlauna.