Konráð S. Guðjónsson, sem mun láta af störfum sem aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs nú um áramótin, hefur verið ráðinn til sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis. Innherji greindi fyrst frá. Konráð mun hefja störf hjá Stefni snemma á næsta ári.

Konráð S. Guðjónsson hefur verið ráðinn aðalhagfræðingur Stefnis.

Konráð hefur starfað hjá Viðskiptaráði síðan í ársbyrjun 2018 en þá var hann ráðinn sem hagfræðingur hjá samtökunum. Konráð starfaði áður sem sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka og þar áður sem sem hagfræðingur á skrifstofu forseta Tansaníu. Hann starfaði einnig hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og var starfsnemi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Úganda.

Konráð er með BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í hagfræði frá University of Warwick.