„Almennt séð er lágt fjármálalæsi vandamál mjög víða. Í könnun sem gerð var í yfir 100 löndum kom fram að aðeins þriðjungur af fullorðnum teljast fjármálalæsir; auðvitað misjafnt eftir löndum, en þetta er sláandi,“ segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. Gunnar er gestur í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. á Hringbraut í kvöld.

Gunnar hefur unnið mjög markvert starf við að bæta fjármálalæsi hér á landi og hefur skrifað sex bækur um fjármál – og eru tvær þeirra kenndar í skólum víða um land.

„Bókin Fyrstu skref í fjármálum er kennd í flestum grunnskólum og bókin Farsæl skref í fjármálum, sem kom út árið 2020, er kennd í flestum framhaldsskólum landsins.“

Búið er að þýða tvær af þessum bókum. Fyrstu skref í fjármálum er komin út á ensku, grísku og albönsku – og hún hefur verið kynnt fyrir kennurum í þrjátíu löndum. Bókin Farsæl skref í fjármálum kom út á ensku í janúar síðastliðnum.

Gunnar skrifaði fyrstu bók sína árið 2004. Hún er um eftirlaun og nefnist; Verðmætasta eignin. Árið 2018 skrifaði Gunnar aðra bók um eftirlaunaárin; bókina Lífið á efstu hæð.

„Ég fékk áskorun árið 2015 um að skrifa bók um fjármál fyrir ungt fólk. Það varð úr að ég skrifaði bókina Lífið er framundan og síðan bættust við bækurnar Lífið er rétt að byrja, Fyrstu skref í fjármálum og Farsæl skref í fjármálum.“

Bækurnar eru kenndar í sérstöku fagi sem heitir fjármálalæsi; en stundum í stærðfræði eða lífsleikni.

„Við tökum fjármálaákvarðanir alla daga. Þess vegna vil ég sjá þetta sem hluta af kjarnafögum í bæði grunnskólum og framhaldsskólum. Þannig er það ekki núna. Það eru hins vegar margir kennarar sem af hugsjón hafa komið þessu efni inn í skólana,“ segir Gunnar.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.