Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Dynamic Technology Equipment (DTE) er reiðubúið að sækja inn á álmarkaðinn með nýjan búnað sem efnagreinir ál samstundis með ljósgeislatækni. Fyrirtækið er komið í viðræður við nokkra af stærstu álframleiðendum heims um innleiðingu búnaðarins.

„Ál er ekki bara ál. Framleiðendur þurfa að uppfylla ákveðnar gæðakröfur og í dag er það gert þannig að sýni eru tekin handvirkt á mörgum stigum framleiðslunnar. Fljótandi áli er hellt í mót, látið storkna og síðan greint á rannsóknarstofu. Þessi sýni skipta hundruðum á hverjum degi í meðalstóru álveri,“ segir Kristján Leósson, þróunarstjóri DTE, í samtali við Markaðinn. „Tæknibúnaðurinn sem við hönnuðum skýtur leisigeislum á álbráðina og efnagreinir hana samstundis.“

Búnaðurinn getur þannig sparað álverum marga snúninga og gert framleiðsluferlið öruggara þar sem mannshöndin þarf ekki að koma nálægt álbráðinni til að unnt sé að efnagreina hana. Þá er hægt að greina álið oftar í framleiðslunni sem getur haft áhrif á það hvernig framleiðsluferlið er hugsað.

„Þessi búnaður getur nýst í gegnum allt ferlið og gegnum alla framleiðslukeðjuna. Allt frá frumframleiðslu áls og til endurvinnslu. Til dæmis er álið sem er framleitt hér á landi að mestu flutt út til annarra álvera sem búa til sérhæfðari málmblöndur til að gefa álinu ákveðna eiginleika. Álið er brætt og blandað öðrum efnum þannig að þar á búnaðurinn okkar einnig heima. Svo kemur hann sér vel þegar greina þarf álið til endurvinnslu,“ segir Kristján.

DTE hefur átt í góðu samstarfi við Norðurál um verkefnið og gerðu fyrirtækin samning sín á milli um notkun búnaðarins í álveri Norðuráls á Grundartanga. DTE hefur auk þess notið góðs af samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um þróun búnaðarins undanfarin ár. „Viðræður eru nú farnar af stað við nokkra útvalda aðila og við munum vinna að því næsta árið að þróa lausnir sem sniðnar verða að þörfum mismunandi viðskiptavina. Við ætlum að byrja með „pilot“-leigusamningum til þess að komast hratt inn á markaðinn og það þýðir að við þurfum að fjármagna smíði tækjanna. Það eru viðræður í gangi um fjármögnun og við stefnum að því að klára þær innan tveggja til þriggja mánaða,“ segir Kristján. – tfh