Farið er að bera á fyrstu merkjum kólnunar á fasteignamarkaði líkt og búið var að spá fyrir um og kaupsamningar um íbúðarhúsnæði hafa ekki verið færri hér á landi síðan í apríl 2015 ef miðað er við sex mánaða hlaupandi meðaltal.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um húsnæðismarkaðinn fyrir ágústmánuð.

Með hlaupandi meðaltali er átt við meðaltal einhverrar tiltekinnar stærðar yfir tímabil með tiltekinni lengd og getur upphaf tímabilsins færst til.

Samkvæmt skýrslu HMS má sjá eitt stærsta merkið um viðsnúning með því að rýna í framboð íbúða. Á höfuðborgarsvæðinu hefur framboð íbúða í ágústmánuði aukist hratt, eða úr 700 í 905 á aðeins 20 dögum.

Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur framboðið vaxið frá því í apríl og rúmlega tvöfaldast.

Hægir á hækkunum

Verð á íbúðum í fjölbýli hækkaði um hálft prósentustig í júní á höfuðborgarsvæðinu en þar á undan höfðu komið fimm mánuðir í röð þar sem mánaðarleg hækkun var á bilinu 2,4 til 3,2 prósent.

Samkvæmt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlí hækkaði íbúðaverð aðeins um 1,1 prósentu á milli mánaða sem er nokkuð lægra en undanfarna mánuði.

Svo virðist sem íbúðum sem seljast yfir ásettu verði hafi ekki fækkað mikið en þó hefur orðið talsverð fækkun á íbúðum sem seljast fimm prósent eða meira yfir ásettu verði.

Sú þróun gefur til kynna að íbúðir seljist síður mikið yfir ásettu verði en áður samkvæmt skýrslunni.