Þrátt fyrir að fasteignamarkaðurinn hafi farið kólnandi undanfarin misseri er enn tiltölulega hátt hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði.

Í desember seldust 17,4 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu á yfirverði samanborið við 19,3 prósent í nóvember og 23,9 prósent í október.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Samkvæmt skýrslunni eru vinsældir verðtryggðra lána hjá bönkunum að aukast hratt það er þó ekkert skýrt nánar í skýrslunni hvort það skýrist af hreinum vilja fólks eða reglunum sem settar hafa verið í kringum lánveitingu.

Hjá bönkunum eru verðtryggð lán 86 prósent af hreinum nýjum lánum en hjá lífeyrissjóðum eru þau aðeins 24 prósent. Af 11,7 milljörðum króna í hrein ný útlán námu verðtryggð lán 6,9 milljörðum króna og óverðtryggð 4,8 milljörðum króna. Hrein ný óverðtryggð lán hafa ekki verið lægri síðan í febrúar 2018.

Bankarnir hækkuðu breytilega óverðtryggða vexti á íbúðalánum um 0,25 prósentustig í desember sem viðbragð við jafn hárri hækkun stýrivaxta í nóvember síðastliðnum. Nú eru því lægstu vextir bankanna að meðaltali 7,6 prósent.

Í skýrslunni er jafnframt greint frá því að fáar íbúðir séu til sölu með greiðslubyrði undir 250 þúsund krónum. Þannig séu færri íbúðir sem standi fólki til boða ef íbúðaverð eða vextir hækka.

„Ef fólk ætlar að taka óverðtryggt lán fyrir 80% af kaupverði og hefur greiðslugetu uppá 250.000 kr. eru aðeins um 100 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem standa því til boða en þá þurfa íbúðir að kosta innan við 47,5 m.kr. Í byrjun ársins 2020, áður en COVID19 náði til landsins, voru hins vegar yfir 800 íbúðir til sölu sem þessi greiðslugeta hefði staðið undir,“ segir í skýrslunni.

Hlutfallslegt framboð íbúða eftir mánaðarlegri greiðslubyrði.
HMS