Markmið samningsins er að binda kolefni (CO2) sem fellur til við uppbyggingu Festis á byggingarreitnum. Festir lagði enn fremur áherslu á að kolefnisbindingin færi fram á Íslandi með skógrækt enda hafi hún jákvæð áhrif á lífríki til viðbótar við kolefnisbindingu.

„Festir hefur lagt mikinn metnað í hönnun og þróun þessa byggingarreits og það var því fljótt ljóst að við myndum vilja reyna að kolefnisbinda reitinn eins og kostur er. Sú leið sem við völdum var að kanna forsendurnar með lífsferilsgreiningu frá Mannviti sem var svo notuð til að ákvarða hvað þyrfti að binda mikið af kolefni. Mannvit reiknaði því út kolefnisfótsporið í tonnum og studdist við alþjóðlegar reikningsreglur til að ákveða hve miklu af trjám þyrfti að planta. Það er raunar heill hellingur eða 130.450 tré sem verða öll gróðursett á þessu ári á fjórum stöðum á landinu,“ segir Róbert Aron Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis.

Fyrstu kolefnisbundnu íbúðirnar í sölu í vetur

Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar, segir að samningurinn sé einn sá stærsti sem Kolviður hefur gert og að Festir sýni mikla ábyrgð með samningnum þar sem töluverður hluti kolefnislosunar komi frá byggingariðnaði.

„Við teljum að með því að stíga þetta skref séum við ekki aðeins að bjóða verðandi íbúum reitsins fallega hannað húsnæði heldur líka að bjóða þeim ábyrgari og umhverfisvænni valkost. Við teljum það mikilvægt að við sem störfum í fasteignauppbyggingu tökum loftslagmálin alvarlega og gerum það sem í okkar valdi stendur til að sporna við kolefnislosun,“ segir Róbert.

Stefnt er á að hefja sölu íbúða á byggingareitnum í vetur en áhugasamir kaupendur geta haft samband við Festi til að skrá sig á póstlista og fá upplýsingar um hvenær fyrstu íbúðirnar koma í sölu.