Áður hefur Kolbrún starfað að fjölbreyttum verkefnum við markaðssetningu á lífeyrissparnaði og öðrum sparnaði auk líf- og sjúkdómatrygginga í störfum fyrir Landsbankann, Landsbréf og MP banka. Þá hefur Kolbrún undanfarin sjö ár gegnt stöðu fjáröflunar- og markaðsstjóra Krabbameinsfélagsins. Kolbrún er með MPM gráðu í verkefnastjórnun og B.A í enskum bókmenntum.

„Það er mikill styrkur að fá öfluga og reynslumikla manneskju eins og Kolbrúnu til liðs við sjóðinn. Verkefnin fram undan eru margvísleg og vaxandi áhersla verður lögð á að efla samtal okkar og fræðslu til sjóðfélaga,“ er haft eftir Hildi Hörn Daðadóttur forstöðumanni rekstrarsviðs.

„Það er sérstaklega gaman að koma til liðs við LV á þessum tímamótum þegar sjóðurinn er að ná miklum árangri fyrir sjóðfélaga sína. Jafnframt er afar spennandi að fá að taka þátt í að kynna nýja stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar. Ég hlakka til að þróa þetta nýja starf til heilla fyrir sjóðfélaga í samstarfi við það þann öfluga hóp sem starfar hjá LV,“ segir Kolbrún.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er einn elsti starfandi lífeyrissjóður landsins, stofnaður 1956. Sjóðurinn er stærstur almennu lífeyrissjóðanna en 175 þúsund Íslendingar eiga meiri eða minni lífeyrisréttindi í sjóðnum. Afkoma sjóðsins hefur verið góð á liðnum árum og ávöxtun eigna meðal þess besta sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa náð. Lífeyrissjóður verslunarmanna tekur á móti lögbundnum iðgjöldum sjóðfélaga og séreignarsparnaði. Nánar á live.is