Klara Íris Vigfúsdóttir hefur látið af störfum hjá Icelandair. Hún var ráðin forstöðumaður flug­freyja og flugþjóna í september 2017 og hefur því gengt starfinu í tæp þrjú ár. Starfið er á flugrekstr­ar­sviði Icelanda­ir og felst meðal ann­ars í að stýra starfs­manna­mál­um flug­freyja og -þjóna, ör­ygg­is­mál­um um borð auk fram­kvæmd­ar á allri þjón­ustu um borð í flug­vél­um fé­lags­ins.

Í bréfi sem hún sendi starfsmönnum fyrirtækisins í gær segir hún að hún hafi ákveðið að nema staðar hjá Icelandair og grípa önnur tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún lét af störfum í gær.

Hún segir að árin hjá félaginu hafi verið lærdómsrík og krefjandi. Flugheimurinn sé nú breyttur til frambúðar en það verði áhugavert fyrir sig að fylgjast með fyrirtækinu á hliðarlínunni.

Klara er með B.sc. í viðskipta­fræði. Hún starfaði í sum­araf­leys­ing­um í flug­deild Icelanda­ir og sem flug­freyja. Hún starfaði síðar á markaðssviði Lands­bank­ans á ár­un­um 2006-2011 og sem fram­kvæmda­stjóri ÍMARK á ár­un­um 2013-2015. Hún starfaði þá við flugrekst­ur sem aðstoðarmaður for­stjóra Ice­land Express og fram­kvæmda­stjóri Express ferða á ár­un­um 2011-2013. Þá var Klara for­stöðumaður hjá Úrval/Ú​tsýn árin 2015-2017.