Klappir hafa fengið vottun sem grænt fyrirtæki eftir úttekt alþjóðlega sjálfbærnifyrirtækisins ISS ESG. Matið byggir á því að yfir 90 prósent af tekjum fyrirtækisins kemur frá hugbúnaði þess sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum. Slík starfsemi er tilgreind sem græn í flokkunarkerfi ESB (e. EU Taxonomy) en gert er ráð fyrir því að sambærilegar reglur verði settar hér á landi.

Er þetta í fyrsta skipti sem sambærileg starfsemi hlýtur slíka staðfestingu frá viðurkenndum aðila líkt og ISS ESG og því ljóst að um er að ræða mikla viðurkenningu fyrir Klappir. Fyrirtækið hefur um árabil verið leiðandi á sviði hugbúnaðargerðar fyrir sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og hefur sem slíkt skapað stafrænt vistkerfi á milli aðila til að deila upplýsingum sín á milli.

Samhliða mati sínu hefur ISS ESG gefið jákvætt ytra álit á nýjum grænum fjármálaramma Klappa en þetta er í fyrsta skipti sem ISS-ESG gerir slíkt hér á landi. Grænn fjármálarammi gerir Klöppum kleift að sækja sér grænt fjármagn frá fjárfestum og lánastofnunum til að fjármagna starfsemi og vöxt fyrirtækisins. Með þessu vill fyrirtækið einnig stuðla að aukinni þátttöku fyrirtækja á íslenskum fjármálamarkaði á grænum forsendum. Slíkt mun styðja við loftslagsmarkmið Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu og auka við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í græna hagkerfinu.

,,Í upphafi voru Klappir eingöngu hugmynd að því sem koma mætti í framkvæmd með samstilltu átaki fjölmargra hagaðila sem deildu sömu sýn. Í dag erum við drifkraftur í sjálfbærnimálum á Íslandi. Hundruð fyrirtækja vinna með hugbúnaðarlausnir Klappa og nýta þær til að ná árangri í sjálfbærni. Þá er stafrænt vistkerfi okkar farið að teygja sig út fyrir landsteinana og erlendir aðilar byrjaðir að tengjast innviðunum, nota hugbúnaðarlausnirnar og/eða að prófa sig áfram með reynsluaðgang. Klappir þurfa að hafa aðgang að grænu vaxtarfjármagni í formi hluta-, skulda- og lánsfjár svo að tryggja megi langtímavöxt félagsins. Grænn fjármálarammi Klappa er mikilvægt skref í að opna aðgang að grænu vaxtarfjármagni. Grænt vaxtarfjármagn gefur okkur tækifæri til að vinna áfram að grænni og sjálfbærari framtíð, vaxa og sækja fram erlendis,” segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.