Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur ráðið Láru Sigríði Lýðsdóttur í stöðu markaðsstjóra fyrirtækisins. Klappir hafa undanfarin fimm ár þróað stafrænar lausnir á sviði umhverfismála sem lágmarka vistspor fyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Lára Sigríður starfaði áður sem markaðsstjóri heilsusviðs Icepharma frá árinu 2017. Þar á undan starfaði hún sem sérfræðingur á alþjóðasviði hjá Valitor.

Lára Sigríður er með BSc í viðskiptafræði frá Háskóla Reykjavíkur og MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Klappir hafa vaxið jafnt og þétt á undanförnum tveimur árum. Á síðasta ári fjölgaði notendum hugbúnaðarins um 72 prósent. Klappir eru nú með yfir 300 íslenska hlutahafa, og rúmlega fjögur þúsund notendur í yfir 20 löndum nýta lausnir félagsins. Klappir voru skráðar á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017.

Með hugbúnaði Klappa má lágmarka vistspor, tryggja fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni og sýna fram á árangurinn á sama tíma og dregið er úr rekstrarkostnaði.