Verkefnið Grænskjáir (Green Penguin) vann á dögunum til verðlauna í flokki sjálfbærni hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Alls sóttu 450 verkefni frá 28 ESB-ríkjum um verðlaunin. Samstarfsaðili Klappa í verkefninu, Slóvenski mælaframleiðandinn Iskraemeco sótti um og tók við verðlaununum. Aðrir samstarfsaðilar að verkefninu eru Landvernd, Reykjavíkurborg, Sorpa, Origo og Faxaflóahafnir. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Grænskjáir eru í grunninn hugmynd unnin út frá því að nýta stafrænt vistkerfi Klappa til að mæla kolefnisspor grunnskóla Reykjavíkur og efla umhverfislæsi ungmenna.

„Grænskjáir verða innleiddir í grunnskóla Reykjavíkur í gegnum Grænfánaverkefni Landverndar og verður lögð áhersla á skemmtilega og auðskiljanlega framsetningu stafræna vistkerfisins ásamt fræðslu um umhverfismál og upplýsingum um hvernig sem bestum árangri er náð.

Grænfánaskólar er helsta innleiðingar tæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag,“ segir Andrea Anna Guðjónsdóttir, fræðslustjóri Landverndar.

Það er búið að semja um að koma upp upplýsingaskjám í grunnskólum Reykjavíkur sem miðla gögnum, þekkingu og fræðslu um umhverfismál.

Nemendur og skólasamfélagið í heild sinni fá aðgang að tölfræðilegum upplýsingum sem gefur þeim tækifæri til að skilja, fræðast og fara í aðgerðir til þess að minnka kolefnisspor skólans. Gögnin úr stafrænu vistkerfi Klappa um orkunotkun og losun skólans verða settar fram á skemmtilegu viðmóti sem að krakkarnir geta auðveldlega unnið með. Undirbúningur að innleiðingu verkefnisins er nú þegar hafinn og er Laugalækjarskóli fyrsti grunnskóli borgarinnar sem tekur þátt í því.

„Verkefnið er liður í samstarfi okkar um vitundarvakningu meðal nemenda um loftslagsmál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Loftslagsmálin eru efst á blaði í nýrri aðgerðaáætlun menntastefnu Reykjavíkurborgar til næstu þriggja ára enda mikilvægasta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir. Verkefnið Grænskjáir verður hryggjarstykkið þegar kemur að fræðslu og virkri verkefnavinnu nemenda um loftslagsmál í grunnskólunum og því mikil viðurkenning að fá þessi verðlaun frá Evrópusambandinu“ segir Skúli Helgason, formaður skóla og frístundaráðs Reykjavíkur.

Ávinningur verkefnisins er margþættur en lítur einna helst að styrkingu grunnskólanemenda í gagnadrifnu umhverfislæsi og getu þeirra til að hugsa um loftslags- og umhverfismál á gagnrýninn, upplýstan, og skýran hátt," segir Þorsteinn Svanur Jónsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar og einn stofnandi Klappa.