Hluthafar LBI, eignarhaldsfélags sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, munu á föstudag kjósa um hvort félagið eigi að höfða mál á hendur fyrrverandi bankastjórum gamla Landsbankans og vátryggjendum til heimtu skaðabóta vegna milljarða lánveitingar bankans til Straums-Burðaráss fáeinum dögum fyrir hrun bankakerfisins haustið 2008.

Stjórn LBI hefur boðað til hluthafafundar næsta föstudag þar sem hluthafar eignarhaldsfélagsins, sem eru að mestu erlendir fjárfestingasjóðir, munu greiða atkvæði um málshöfðunina en hún beinist að fyrrverandi bankastjórunum Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni ásamt erlendum vátryggjendum sem selt höfðu gamla Landsbankanum ábyrgðartryggingu.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í lok síðasta árs frá dómi tveimur málum sem LBI hafði höfðað gegn fyrrverandi stjórnendum og vátryggjendum gamla Landsbankans en annað málið varðaði einmitt umrædda 19 milljarða króna lánveitingu bankans til Straums-Burðaráss.

Í því máli krafðist eignarhaldsfélagið þess að Sigurjón og Halldór yrðu dæmdir til að greiða sér sameiginlega ríflega 5,3 milljarða króna, QBE International Insurance jafnvirði 2,8 milljarða króna og QBE Corporate 775 milljónir króna. Var það niðurstaða dómsins að verulega hefði skort á að LBI hefði gert fullnægjandi grein fyrir endanlegu tjóni sínu vegna ráðstafana Halldórs og Sigurjóns.