Kjartan Þórðarson kemur frá Parlogis þar sem hann hefur verið fjármálastjóri síðustu 20 ár. Kjartan er með MSc í hagfræði og fjármálum frá Copenhagen Business School og BA í hagfræði frá Háskóla Íslands.

„Ég kynntist GOOD GOOD í gegnum vinnu mína sem fjármálastjóri Parlogis fyrir 6 árum síðan, þar sem ég sá aukalega um fjármál fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur vaxið töluvert frá þeim tíma og verkefnin orðin fleiri og meira spennandi. Þegar mér bauðst að gerast fjármálastjóri GOOD GOOD þá fannst mér ég ekki geta sleppt því að taka þátt í þeirri spennandi uppbyggingu sem framundan er hjá GOOD GOOD, “ segir Kjartan Þórðarson nýráðinn fjármálastjóri GOOD GOOD.

„Það er mikill styrkur í því að fá Kjartan Þórðarson í fullt starf hjá GOOD GOOD sem fjármálastjóra GOOD GOOD samstæðunnar. Kjartan hefur verið viðloðandi rekstur GOOD GOOD frá upphafi og þekkir sögu félagsins vel og þann vöxt sem hefur átt sér stað,“ segir Garðar Stefánsson framkvæmdarstjóri GOOD GOOD.

Um GOOD GOOD:

GOOD GOOD er íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum án viðbætts sykurs, þá sérstaklega í morgunmatar og dögurðar (brunch) matvörum.

Vöruframboðið samanstendur m.a. af sultum, hnetu- og súkkulaðismyrjum, sætuefnum, stevíu-dropum, sýrópi, bökunarvörum og keto-börum.

GOOD GOOD byggir á íslensku hugviti, þekkingu, hönnun og markaðsstarfi. Öll vöruþróun, sölu og markaðsstarf, stýring aðfangakeðjunnar og gæðamál fara fram á Íslandi. Framleiðsla varanna fer hins vegar fram í Hollandi og Belgíu og er vörunum dreift þaðan í gegnum vöruhús fyrirtækisins í Tilburg í Hollandi, Virginiu í Bandaríkjunum og Ontario í Kanada. Vörur fyrirtækisins fást í dag í rúmlega 12.500 verslunum í 18 löndum. Alls starfa 15 starfsmenn hjá GOOD GOOD; 10 í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, 3 í Bandaríkjunum, 1 í Bretland og 1 í Úkraínu.

Hérlendis fást vörur GOOD GOOD í öllum helstu matvöruverslunum.