Eig­endur Kjarna­fæðis og Norð­lenska hafa komist að sam­komu­lagi um helstu skil­mála sam­runa fé­laganna. Kjarna­fæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunn­laugs­sona, en Norð­lenska er í eigu Bú­sældar, sem er í eigu um 500 bænda á Ís­landi.

Í sam­eigin­legri til­kynningu kemur fram að með sam­runanum séu eig­endur að bregðast við breytingum í rekstrar­um­hverfi mat­væla­iðnaðar undan­farin misseri.

„Það er mat eig­enda fé­laganna að sam­einað fé­lag sé betur í stakk búið til að veita við­skipta­vinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, góða þjónustu á sam­keppnis­hæfu verði.“

Í til­kynningunni segir að Kjarna­fæði og Norð­lenska hafi átt í við­ræðum um sam­runa frá því á haust­mánuðum 2018 en líkt og fram hefur komið hafa fé­lögin nú náð saman um þau at­riði sem útaf stóðu.

Þá segir að sam­komu­lag um sam­runa fé­laganna sé með fyrir­vara um sam­þykki Sam­keppnis­yfir­valda og sam­þykki hlut­hafa­fundar Bú­sældar. Ís­lands­banki veitir sam­runa­fé­lögunum ráð­gjöf í sam­runa­ferlinu.

Kjarna­fæði var stofnað árið 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunn­laugs­sonum og fram­leiðir úr­val kjöt­vara, einkum undir vöru­merkinu Kjarna­fæði. Hjá fé­laginu starfa 130 manns og fer starf­semin að mestu fram á Sval­barðs­eyri. Til við­bótar við rekstur Kjarna­fæðis er af­urðar­stöð SAH á Blöndu­ósi í sömu eigu, en þar eru unnin 52 árs­verk, á­samt um 34% hlut í Slátur­fé­lagi Vopn­firðinga, þar sem rekin eru sauð­fjár­slátur­hús.

Norð­lenska varð til árið 2000 við sam­runa kjöt­iðnaðar­stöðvar KEA og Kjötiðjunnar Húsa­vík, en stækkaði árið 2001 þegar fé­lagið sam­einaðist þremur kjöt­vinnslum Goða. Fé­lagið er í eigu Bú­sældar, fé­lags kjöt­fram­leið­enda í Eyja­firði, Þing­eyjar­sýslum og á Austur- og Suð­austur­landi, en hlut­hafar Bú­sældar eru um 500 bændur. Um 190 árs­verk eru unnin hjá fé­laginu og skiptist starf­semin á milli Akur­eyrar, þar sem rekið er stór­gripa­slátur­hús og kjöt­vinnsla, Húsa­víkur, þar sem rekin er sauð­fjár­slátur­hús og kjöt­vinnsla fyrir sauð­fjár­af­urðir, og sölu­skrif­stofa í Reykja­vík. Fé­lagið fram­leiðir úr­val kjöt­vara, einkum undir vöru­merkjunum Norð­lenska, Goði, Húsa­víkur­kjöt, og KEA.