Eignarhaldsfélagið Kjálkanes, sem hefur selt í Síldarvinnslunni fyrir meira en 17 milljarða króna að undanförnu, heldur áfram að auka við eignarhlut sinn í Arion banka og fer núna með um 0,5 prósenta hlut í bankanum. Það skilar félaginu í hóp um þrjátíu stærstu hluthafa Arion banka.

Samkvæmt nýjum lista yfir alla hluthafa Arion, sem Markaðurinn hefur séð, á Kjálkanes 8 milljónir hluta að nafnvirði en markaðsvirði þess hlutar, miðað við núverandi gengi bréfa bankans, er tæplega 1.200 milljónir króna.

Félagið hefur næstum tvöfaldað eignarhlut sinn í Arion banka frá mánaðarmótum en í lok í síðasta mánaðar átti Kjálkanes 5 milljónir hluta að nafnverði.

Eigið fé Kjálkaness, sem er í eigu sömu aðila og eiga útgerðarfélagið Gjögur á Grenivík, nam 13 milljörðum í árslok 2020. Stærstu eigendur Kjálkaness, með 45 prósenta hlut, eru systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn en í hluthafahópnum er einnig Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, með tæplega 9 prósenta hlut.

Í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar í Kauphöllina um miðjan maí seldi Kjálkanes um 15 prósenta hlut í útgerðinni fyrir samtals 15,3 milljarða króna. Félagið hefur haldið áfram að minnka við hlut sinn í Síldarvinnslunni eftir útboðið en í síðustu viku seldi Kjálkanes fyrir um tvo milljarða í tveimur viðskiptum. Kjálkanes er eftir sem áður annar stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með um 17 prósenta hlut.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um 56 prósent frá áramótum og stendur gengi bréfa bankans nú í 148 krónum á hlut.