Flugsýningin fór fram í suður-kínversku borginni Zhuhai í Guangdong héraði á þriðjudaginn. Þotan var smíðuð af kínverska fyrirtækinu Comac sem nokkurs konar keppinautur við evrópsku Airbus A320neo og bandarísku Boeing 737 MAX flugvélarnar.

Skipuleggjendur sýningarinnar höfðu ráðlagt gestum að mæta þremur dögum fyrr og fóru flestir eftir þeim fyrirmælum. Þrátt fyrir það var mörgum fulltrúum ekki hleypt inn á sýninguna fyrsta daginn þar sem þeir höfðu heimsótt hverfi í Peking þar sem upp komst um smit einni viku á undan.

"Sýningin er tilvalið tækifæri til að betur skilja flugiðnað landsins."

Stjórnvöld í Kína virðast ekki ætla að gefast upp á „núll-Covid“ stefnu sinni og eru enn í gildi strangar samkomutakmarkanir víðs vegar í landinu. Stefnan hefur á sama tíma haft mikil áhrif á kínverska flugiðnaðinn og eru alþjóðaflug til og frá Kína aðeins brotabrot af því sem þau voru fyrir heimsfaraldurinn.

Á flugsýningunni mátti einnig sjá kínverskan herbúnað eins hina ómönnuðu FH-97A drónavél og Chengdu J-20 orrustuþotu, en hún getur komist hjá því að sjást á radar óvinsins.

Greg Waldron, ritstjóri hjá FlightGlobal í Asíu, segir að sýningin í Zhuhai sé stór viðburður á meðal kínverskra flugáhugamanna. „Það eru ákveðin vonbrigði að missa af henni þar sem sýningin er tilvalið tækifæri til að betur skilja flugiðnað landsins,“ segir Greg.