Í seinustu viku varð China Eastern Airlines fyrsta flugfélagið í heiminum til að fá afhenta Comac C919 farþegaþotu. Flugvélin er sú fyrsta sinnar tegundar sem framleidd er í Kína og markar hún mikil tímamót í samkeppni Kínverja við Airbus og Boeing.
Þotan er smíðuð af kínverska ríkisrekna fyrirtækinu Comac og er hún hugsuð sem eins konar keppinautur við Airbus A320neo og bandarísku Boeing 737 Max flugvélarnar. Vélin á rætur að rekja til ársins 2008 þegar framleiðandinn Comac var stofnaður.
Það hefur ekki enn fengist staðfest hve miklum fjármunum kínverska ríkið hefur veitt í þetta verkefni, en sérfræðingar telja það vera á milli 49 til 72 milljarða Bandaríkjadala. Xi Jinping, forseti Kína, hefur lagt mikla áherslu á að þjóðin framleiði sína eigin farþegaþotu en fram til þessa hefur Boeing verið helsti söluaðili á kínverskum flugmarkaði.
Boeing býr yfir meira en 100 ára reynslu í flugiðnaði en Kínverjar byrjuðu aftur á móti ekki að prófa sig áfram í þeim geira fyrr en á áttunda áratug seinustu aldar. Á tíunda áratugnum fór eftirspurn eftir flugferðum í landinu ört vaxandi og árið 2017 framleiddi Boeing meira en 200 nýjar flugvélar fyrir kínverska markaðinn.
Á sama ári hófu hins vegar bandarísku og kínversku ríkisstjórnirnar viðskiptastríð og í framhaldi af því stöðvuðu Kínverjar allar nýjar pantanir frá Boeing. Með þeirri ákvörðun opnaðist gluggi fyrir innlendan framleiðanda.
Hönnunin á Comac C919 vélinni er ekki mjög frábrugðin hinni sígildu Boeing 737 Max. Báðar eru með einn gangveg, eru jafn breiðar og rúma svipaðan farþegafjölda. Hreyflar beggja flugvéla eru einnig mjög svipaðir en þeir eru frá fyrirtækinu CFM, sem er sameiginlegt verkefni bandaríska fyrirtækisins General Electric og hins franska fyrirtækis Safran.
Comac C919 er smíðuð í Kína en reiðir sig engu að síður á erlenda varahluti og hefur það skapað ákveðin vandamál fyrir framleiðandann. Sérfræðingar innan fluggeirans segja að alþjóðlegir samstarfsaðilar hafa verið hikandi við að afhenda hátæknibúnað til kínverskra fyrirtækja sökum ótta við brot á hugverkarétti. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur áður fyrr sakað Kína um að stela hátækniupplýsingum og var Comac á einum tímapunkti sett á svartan lista hjá Bandaríkjastjórn yfir fyrirtæki sem sögð voru styðja kínverska herinn.
„Ég held að þetta sé mjög gott fyrir framboðið á þessum markaði. Eftirspurnin er svo mikil að þetta er eiginlega nauðsynlegt"
Annað sem gæti hrjáð Comac í framtíðinni eru viðhaldserfiðleikar á C919 flugvélunum. Framleiðendur eins og Boeing og Airbus hafa í gegnum árin byggt upp alþjóðlegt tengslanet en það gæti reynst alþjóðlegum flugfélögum erfitt að gera við sínar Comac þotur ef allar viðgerðir þurfa að fara fram í Kína.
Eyjólfur Vestmann Ingólfsson, rekstrarstjóri hjá Inter Continental Aviation, segir að innleiðing Comac á flugmarkað muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif á samkeppnisaðila. Fyrirtækin Boeing, Airbus og Embraer hafa einfaldlega ekki náð að uppfylla gríðarmikla eftirspurn eftir smærri farþegaþotum á alþjóðavísu.
„Ég held að þetta sé mjög gott fyrir framboðið á þessum markaði. Eftirspurnin er svo mikil að þetta er eiginlega nauðsynlegt. En svo er auðvitað punktur líka að Kínverjar eru með þessu að gera tilraun til þess að vera ekki eins háðir Evrópu og Bandaríkjunum með flugvélaframleiðslu,“ segir Eyjólfur.