Lokað var fyrir allar bókanir á þær ferðir sem áætlaðar voru hjá kínverska flugfélaginu Juneyao Airlines í gær til Íslands og ljóst er að þær verða ekki settar aftur í sölu. Þetta kemur fram á vefnum turisti.is. Ástæðan samkvæmt forsvarsmönnum Juneyao Airlines sé útbreiðsla Covid-19, kórónaveirunnar. Einnig hefur verið hætt við áætlunarferðir flugfélagsins til Dublin og Machester.

Fréttablaðið ræddi við Xu Xiang, forstöðumann félagsins á Norðurlöndum, síðastliðinn nóvember þar sem hann greindi frá því að félagið myndi hefja flug í vor milli Keflavíkur og Sjanghæ, með viðkomu í Helsinki. Flogið yrði tvisvar allt árið og var gert ráð fyrir að um 20 þúsund farþegar yrði fluttir til landsins á árinu 2020.

Þá stóð til að fyrsta flug yrði 31. mars, en var því síðan frestað til 25. apríl þegar alvarleiki kórónaveirunnar var orðinn ljós.

Tæplega hundrað þúsund kínverskir ferðamenn komu til landsins í fyrra.