China Merchants Group, sem er í eigu kínverska ríkisins, í samstarfi við breskt fyrirtæki hyggst hleypa af stokkunum stærðarinnar fjárfestingarsjóð á sviði tækni. Fjárhæðin sem safna á samsvarar um 1.600 milljörðum króna. Sjóðurinn á að vera svar Kína við tæplega sjö sinnum stærri sjóð á vegum hins japanska SoftBank. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Kínverska ríkisfyrirtækið ásamt öðrum kínverskum fjárfestum hefur skuldbundið sig til að leggja fram um 40 prósent af fjárhæðinni í sjóðinn sem fjárfesta mun einkum í kínverskum tæknifyrirtækjum.

Sjóðurinn, China New Era Technology Fund, mun einnig skoða fjárfestingartækifæri á heimsvísu. Ríkisstjórnir á Vesturlöndum hafa í vaxandi mæli áhyggjur af fjárfestingum Kínverja í tæknifyrirtækjum í heimalöndum þeirra.

China Merchants Group vinnur að sjóðnum með breska fjármálafyrirtækinu Centricus sem aðstoðaði SoftBank við að koma á fót stærsta tæknisjóði sögunnar og SPF Group sem staðsett er í Peking. Á meðal eigenda þess er Joshua Fink, sonur stofnanda BackRock, Larry Fink. Síðarnefndu fyrirtækin eiga að safna þeim 60 prósentum af sjóðnum sem eftir standa.

Um þessar mundir vinna alþjóðlegir fjárfestar að því að safna fé í æ stærri sjóði til að keppa við fyrrnefndan tæknisjóð SoftBank. Kínversk ríkisfyrirtæki hafa á undanförnum tveimur árum ýtt úr vör stærðarinnar fjárfestingasjóðum sem fjárfesta eiga í tækni.