Bandaríkin og Kína hafa samþykkt að draga til baka tollahækkanir á vörur frá löndunum í skrefum samhliða áframhaldandi samningaviðræðum.

„Á undanförnum tveimur vikum hafa háttsettir samningamenn átt í alvarlegum, uppbyggilegum viðræðum um að draga til baka tollahækkanir í ljósi þess að árangur hefur náðst á fundunum,“ segir Geo Feng, talsmaður kínverska viðskiptaráðuneytisins. Þetta kemur fram í erlendum fjölmiðlum.

Löndin hafa átt í hatrömmum viðræðum í 18 mánuði eftir að ríkistjórn Donalds Trumps hækkaði tolla á kínverskar vörur. Kínverjar svöruðu í sömu mynt.

Tollastríð dregur kraftinn úr heimshagkerfinu

Tollastríð landanna hefur dregið úr umsvifum í heimshagkerfinu. Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður hagvöxtur á heimsvísu í ár með minnsta móti frá fjármálahruni eða um þrjú prósent. Sjóðurinn hefur sagt að tollastríð Bandaríkjanna og Kína leiði til stöðnunar í alþjóðlegum viðskiptum.

„Spurningin er um hvað var raunverulega samið. Fjármálamarkaðir horfa nú til viðbragða bandarískra stjórnvalda við ummælum kínverska stjórnvalda,“ segir Tommy Xie, hagfræðingur Oversea-Chinese Banking Corp. „Fjárfestar eru enn varir um sig,“ segir hann við Bloomberg fréttaveituna.