Kickstarter-bræðurnir, Einar Ágústsson og Ágúst Arnar Ágústsson, opnuðu á dögunum pizzustaðinn Slæs með pompi og prakt. Staðurinn til húsa í Iðnbúð 2 Garðabæ.
Rekstrarfélag staðarins heitir Megn ehf. og er í 100 prósent eigu Einars en Ágúst Örn er skráður í varastjórn félagsins. Athygli vekur að hvergi á heimasíðu veitingastaðarins er rekstrarfélagsins getið en það er skráð fyrir vefsíðu Slæs.
Saksóknari rannsakaði Kickstarter söfnun bræðranna
Bræðurnir komust fyrst í fréttirnar fyrir söfnun á bandarísku hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Söfnuninni var skyndilega lokað eftir að sérstakur saksóknari hóf að rannsaka bræðurnar.
Þá var Einar fundinn sekur um að svíkja 74 milljónir af fjórum einstaklingum árið 2017. Taldi hann fjórmenningunum trú um að þeir væru að leggja féið í fjárfestingasjóð sem hann var sjálfur í forsvari fyrir. Í dómnum kom fram að hann ætti sér engar málsbætur.
Stofnendur Zúista
Þeir bræður hafa einnig komist í fréttir fyrir aðkomu sína að trúfélagi Zúista sem stofnað var árið 2015. Í desember var ákæra héraðssaksóknara á hendur Ágústi og Einari þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Bræðurnir voru ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti í gegn um starfsemi Zúista. Refsiramminn fyrir brotin sem ákært er fyrir er sex ára fangelsi. Bræðurnir neituðu báðir sök og fóru verjendur þeirra fram á frávísun.
Við stofnun félags Zúista lofuðu þeir Ágúst Arnar og Einar trúfélögum sínum að þeir fengu í sinn hlut endurgreiðslu á sóknargjöldum upp á ríflega tíu þúsund krónur, sem er það framlag sem ríkir greiðir trúfélögum fyrir hvern meðlim. Árið 2016 voru rúmlega þrjú þúsund manns meðlimir í Zúistum og fékk félagið rúma 31 milljón króna í sinn hlut í sóknargjöld frá ríkinu. Þá voru 2851 meðlimir í félaginu. Við upphaf árs 2018 voru meðlimir nokkru færri eða rétt tæplega tvö þúsund.
Giftingarnar besta minningin
Í febrúar 2019 sendi Ágúst Arnar Ágústsson, sem þá var forstöðumaður trúfélags Zúista, frá sér tilkynningu um að hann hefði látið af störfum. Þá sagði hann að bestu minningarnar úr starfinu væru giftingar sem hann hefði framkvæmt í krafti starfs síns. „Ég er sannfærður um að bæði ný stjórn og forstöðumaður muni gæta hagsmuna meðlima og stefnu félagsins,“ sagði forstöðumaðurinn fráfarandi.
Við upphaf síðasta árs féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ríkið var sýknað af kröfum félagsins um greiðslu sóknargjalda en sýslumaður Reykjavíkur hafði farið þess á leit við Fjársýslu ríkisins að stöðva greiðslur til Zúista þar sem félagið hefði ekki uppfyllt reglur um virka starfsemi trúfélaga.
Héraðsdómur taldi svör trúfélagsins um starfsemi sína hafi ekki verið fullnægjandi og ekki til þess fallin að gera sýslumanni kleift að meta hvort starfsemi þess væri virk og stöðug.
„Stefnandi gerir því ekki grein fyrir því hvaða góða málefni það var sem hann veitti háa styrki árið 2017, í hverju aðkeypt þjónusta fyrir umtalsverðar fjárhæðir fólst, svo og hvaða kostnað tengdan viðburðum félagið þurfti að greiða og síðast en ekki síst hvaða tengdi aðili það var sem fékk afar hátt lán frá stefnanda árið 2017. Í ársreikningnum voru ekki skýringar við einn einasta lið,“ sagði meðal annars í niðurstöðu héraðsdóms.