Fjárfestahópurinn sem keypti rekstur Domino’s á Íslandi greiddi 2,4 milljarða króna fyrir skyndabitakeðjuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá seljandanum, hinu breska Domino´s Pizza Group, til Kauphallarinnar í London. Búist er við að salan gangi í gegn í maí.

Eins og greint hefur verið frá samanstendur fjárfestahópurinn af félögunum Eyju, í eigu Birgis Bieltvedt, Sjávarsýn, sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, Kristni, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og Lýsi, sem er meðal annars í eigu Gunnlaugs S. Gunnlaugssonar og Katrínar Pétursdóttur.

Domino´s Pizza Group keypti reksturinn af Birgi í tvennu lagi árin 2016 og 2017 fyrir um 8,4 milljarða. Tekjur Domino‘s á Íslandi, sem rekur 23 pítsustaði, drógust saman um 17 prósent í fyrra. Þær námu 20,5 milljónum punda, jafnvirði 3,7 milljörðum króna miðað við þáverandi gengi. Rekstrarhagnaður var liðlega 100 milljónir.

Þrír fjárfestahópar bitust um að kaupa rekstur Domino‘s. Hinir tveir voru hópur sem samanstóð af eigendum pítsustaðarins Spaðans sem Þórarinn Ævarsson fer fyrir og Alfa, sem rekur sjö milljarða króna framtakssjóð.