Seðlabanki Íslands átti í viðskiptum um kaup á aflands­krónum undir lok aprílmánaðar fyrir jafnvirði á þriðja milljarðs króna, en á þeim tíma hafði talsvert af slíkum kvikum krónueignum verið að leita úr landi í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og sett þrýsting á gengi krónunnar. Samkvæmt heimildum Markaðarins keypti Seðlabankinn aflandskrónurnar af bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu Loomis Sayles, sem á um helming allra aflandskrónueigna, en kaupin voru gerð í gegnum viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir rétt að eitthvað af þessum af­landskrónum, sem nema í dag samtals um 50 milljörðum króna, hafi farið að hreyfast eftir að kórónaveiru­faraldurinn brast á í marsmánuði.

„Í samræmi við fyrri yfirlýsingu Seðlabankans höfum við komið í veg fyrir að sú þróun hafi haldið áfram, með því að eiga nýlega í beinum viðskiptum um kaup á aflandskrónum. Þannig höfum við tryggt að þær eignir leiti ekki úr landi og raski stöðugleika á gjaldeyrismarkaði,“ útskýrir Ásgeir. Hann segist ekki geta tjáð sig um hver hafi verið að losa um aflands­krónur sínar, en segir að um hafi verið að ræða „stóran eiganda af­landskrónueigna“.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á þeim tíma þegar kaupin fóru fram undir lok apríl, en um var að ræða tvö aðskilin skipti, hafði gengi krónunnar veikst umtalsvert og var sem dæmi á bilinu 158 til 160 krónur gagnvart evru. Samkvæmt heimildum Markaðarins fóru kaupin á aflandskrónunum fram á markaðsgengi þess tíma. Gengi krónunnar hefur síðan styrkst nokkuð á undanförnum vikum – um 5 prósent frá því í byrjun maí – og stendur krónan nú í 152 gagnvart evrunni.

Umfang aflandskrónueigna hefur farið minnkandi á síðustu mánuðum og misserum, en í lok september í fyrra nam fjárhæð þeirra um 62 milljörðum króna. Aflandskrónueignir samanstanda að mestu, eða sem nemur 38 milljörðum, af innlánum og innstæðubréfum Seðlabankans, en aðrar eignir eru meðal annars ríkisbréf, ríkisvíxlar og önnur verðbréf.

Í árslok 2018 var eigendum af­landskróna heimilað að skipta þeim í gjaldeyri og flytja úr landi. Seðlabankinn hefur hins vegar sagt í yfirlýsingum sínum að hann muni tryggja að ekki skapist ójafnvægi á gjaldeyrismarkaði vegna gjaldeyrisútflæðis slíkra eigna.

Heildarumfang aflandskrónueigna, sem námu um 40 prósentum af landsframleiðslu í árslok 2008, minnkaði verulega vegna aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, meðal annars með fjárfestingarleið Seðlabankans 2012 til 2015 og gjaldeyrisútboði fyrir aflands­krónueigendur í júní 2016. Þá minnkaði aflandskrónu­stabbinn um 100 milljarða króna í mars 2017, þegar Seðlabankinn náði samkomulagi við hóp aflandskrónueigenda um að kaupa krónueignir þeirra á genginu 137,5 gagnvart evru.

Loomis Sayles hafnaði hins vegar tilboði Seðlabankans á þeim tíma, rétt eins og sjóðir fyrirtækisins gerðu þegar þeir tóku ekki þátt í aflandskrónuútboði bankans, þar sem eigendum slíkra krónueigna bauðst að selja þær á genginu 190 krónur fyrir hverja evru.