Kex Hostel tapaði 182 milljónum króna fyrir skatta árið 2018. Árið áður nam tapið 58 milljónum króna. Eigið fé fyrirtækisins var neikvætt um 28 milljónir króna við árslok. Hlutafé þess var aukið um 33 milljónir í fyrra og 229 milljónir króna árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi.

Tap hostelsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og áhrif dótturfélaga var 60 milljónir króna samanborið við 66 milljóna króna hagnað árið áður.

Fiskisund á 53 prósent í Kex Hostel. Það er í eigu Einars Arnars Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Höllu Sigrúnar Hjartardóttur, fyrrverandi stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, og Kára Þórs Guðjónssonar, fyrrverandi starfsmanns Íslandsbanka. KP, sem er í eigu Birkis Kristinssonar, á 37 prósenta hlut.

Dótturfélög Kex Hostels, þar á meðal veitingastaðurinn Sæmundur í sparifötunum, töpuðu 89 milljónum á árinu samanborið við 71 milljónar króna tap árið áður.

Velta Kex Hostels dróst saman um fjórðung milli ára og var 353 milljónir króna árið 2018. Seld gisting dróst ekki jafn mikið saman, þar var samdrátturinn 14 prósent og þær tekjur námu 264 milljónum króna.