Hvorki Valitor né Kortaþjónustan hyggjast grípa til sambærilegra aðgerða gagnvart viðskiptavinum sínum og Borgun, sem ákvað að halda eftir 10 prósentum af öllum færslum í sex mánuði, þar með talið færslum vegna sölu á vöru eða þjónustu sem hefur verið veitt.

„Við höfum beðið um upplýsingar frá okkar kúnnum til að átta okkur á umfangi fyrirframgreiðslna. Við höfum reynt eftir fremsta megni að halda ekki eftir fjármunum vegna sölu sem hefur verið veitt og erum ekki að því,“ segir Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Kortaþjónustunnar.

„En það er mikilvægt að viðskiptavinir vinni með okkur í því að greina stöðuna hverju sinni,“ heldur Jakob áfram.

Borgun tilkynnti á föstudag þeim fyrirtækjum sem skipta við kortafyrirtækið um skilmálabreytingar, sem fela í sér að tekin verði upp svokölluð veltutrygging frá 1. október.

Með veltutryggingu er átt við að Borgun heldur eftir 10 prósentum heildarfjárhæðar allra færslna á uppgjöri í sex mánuði. Þá verður ekki gert upp oftar en mánaðarlega.

Fréttablaðið fékk ekki svör frá Borgun um þetta mál þegar eftir því var leitað í gær.

Í svari frá Valitor kemur fram að fyrirtækið sé að glíma við svipuð úrlausnarefni gagnvart ferðaþjónustu og aðrir færsluhirðar hér á landi og um allan heim.

„Við höfum kosið að vinna með þessum aðilum einstaklingsbundið og gætt meðalhófs í aðgerðum. Það hefur í langflestum tilvikum gengið vel og ekki fyrirhugaðar neinar sértækar breytingar á skilmálum,“ segir í svari Valitors.

Þá er tekið fram í svari Valitors að nær undantekningarlaust hafi ekki verið þörf á aðgerðum vegna kaupmanna í öðrum greinum en ferðaþjónustu.