Sprotafyrirtækið Responsible Foods, sem þróað hefur heilsunasl undir vörumerkinu Næra og selt til Asíu og Bandaríkjanna, komst nýverið í úrslit World Dairy Innovation Awards og keppir meðal annars á móti stórum alþjóðlegum fyrirtækjum. Þetta segir dr. Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Á meðal hluthafa eru Mjólkursamsalan, Loðnuvinnslan, Lýsi og Ó. Johnson & Kaaber.

„Reponsible Foods (RF) er í úrslitum fyrir bestu mjólkurpróteinvöruna, sem er ostanasl með 76 prósent próteini, besta mjólkurvörunaslið sem er skyrnaslið og besta nýja vörumerkið eða fyrirtækið,“ segir hún í samtali við Markaðinn.

Holly, sem er matvæla og næringarfræðingur, stofnaði fyrirtækið árið 2019. Hún starfaði lengi í matvæla- og innihaldsefnaiðnaðnum í Bandaríkjunum og flutti til Íslands í desember 2015 til að vinna sem verkefnastjóri hjá Matís. „Hugmyndin á bakvið stofnun RF var að sameina einstaka vinnslutækni og íslensk hráefni til að þróa og framleiða hollar lítið unnar hágæða naslvörur bæði fyrir erlendan og innlendan markað,“ segir hún og nefnir að hana langi til að koma Íslandi á kortið í flokki hollra naslvara sem sé í örum vexti.

Aukin eftirspurn eftir hollum mat

„Neytendur eru sífellt meira að sækjast eftir vörum sem eru hollar, lítið unnar og innihalda hágæða sjálfbær hráefni sem er einmitt það sem RF hefur fram að færa. Hjartað í starfsemi RF er tækni sem fyrirtækið er með einkaleyfi á. Tæknin gerir það mögulegt að þurrka mismunandi hráefni mjög hratt við lágt hitastig þannig að bragðgæði og næringarinnihald þeirra haldist,“ segir Holly.

Fram hefur komið á vef Markaðarins að RF lauk í fyrra yfir hundrað milljóna króna fjármögnun. „Fyrirtækið setti sínar fyrstu vörur á markað síðasta haust og fór salan strax vel af stað og er ljóst að landinn kann vel að meta þessa nýjung á markaðnum. Vörurnar fást í nær öllum stórverslunum landsins og einnig smærri verslunum. Í vinnslu fyrirtækisins að Grandagarði í Reykjavík er framleitt stökkt og próteinríkt nasl úr mismunandi tegundum af íslenskum ostum auk þess sem fyrirtækið framleiðir algjöra nýjung á heimsvísu sem er poppað nasl unnið úr fersku íslensku skyri. Skyrneysla hefur vaxið mikið erlendis síðustu ár en hingað til hefur ekki fengist nasl framleitt úr skyri. Varan, sem er með langt geymsluþol, á eftir höfða til breiðs hóp neytenda,“ segir hún.

Setja upp vinnslu á Fáskrúðsfirði

Nú er unnið að því að setja upp seinni vinnslu RF í samtarfi við Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði. Þar verða þróaðar og framleidda naslvörur úr mismunandi íslensku sjávarfangi. „Þetta verður alveg ný tegund af fiskinasli sem verður laust við fiskilyktina sem einkennir harðfisk og verður með framúrskarandi bragðgæði. RF hefur unnið mikla þróunarvinnu tengt naslinu og fengið meðal annars ómetanlegan styrk frá Tækniþróunarsjóði sem hefur stutt við þessa þróun. Naslið hefur fengið frammúrskarandi viðtökur í neytendaprófum, bæði hérlendis og erlendis,“ segir Holly sem telur að varan eigi mikla möguleika á erlendum mörkuðum þar sem ekkert sambærilegt nasl sé til staðar úr sjávarfangi.

Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóri Responsible Foods.
Mynd/Aðsend

„Hin mikla fiskilykt og bragð sem einkennir harðfisk höfðar ekki til allra, en þessi nýja vara hefur meðal annars fengið hæstu einkunn hjá neytendum sem jafnvel borða ekki venjulega fisk, hvað þá harðfisk. Félagið stefnir líka á mikla aukningu á útflutning á vörum sínum á árinu með áherslu á markaði þar sem eftirspurn eftir hollum naslvörum er mikil. Áhersla verður fyrst á skyrnaslið og tvær tegundir af osta­nasli sem eru þegar í framleiðslu og síðar fiskinaslið þegar framleiðslan fer í gang fyrir austan,“ segir hún.

Aðspurð um áskoranir tengdar rekstrinum segir Holly að fyrsta áskorunin hafi verið að tryggja félaginu nægt fjármagn til að koma hugmyndinni á framkvæmdastig. Það hafi tekið sinn tíma. Hún sé afar þakklát að hafa fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði, Matvælasjóði, Framleiðnisjóði og Nýsköpunarsjóði námsmanna til að styðja við rannsókna- og þróunarstarf sitt. Fjárfesting frá fyrirtækjum og einstaklingum hafi einnig skipt sköpum til að koma starfseminni af stað.

„Ein stærsta áskorunin var að setja upp vinnsluna og framleiðsluna í miðjum Covid-faraldri.“

Eins hafi tekið á að koma fyrirtækinu á rekspöl í Covid-heimsfaraldrinum. „Ein stærsta áskorunin var að setja upp vinnsluna og framleiðsluna í miðjum Covid-faraldri sem þýddi miklar tafir á köflum við uppsetninguna. Ferðatakmarkanir voru líka mikil áskorun þar sem mjög mikilvægt er að fara á sölusýningar og hitta fólk í persónu þegar verið er að koma nýtti vöru á markað. Þar að auki setti skortur á erlendum ferðamönnum strik í reikninginn, enda mikilvægur kúnnahópur á fyrstu stigum félagsins.

Stærsta áskorunin fram undan verður að koma útflutningi á fullt og selja vörurnar á erlendum mörkuðum enda er markmið félagsins að vera fyrst og fremst útflutningsfyrirtæki. Samhliða útflutningi þarf að skala upp framleiðsluna sem verður kostnaðarsamt,“ segir hún