SAHARA Academy er nýr skóli í stafrænni markaðssetningu sem kennir jöfnum höndum fræðilega þekkingu og verklega færni í faginu. Nemendur læra að setja upp herferðir og mæla árangur þeirra í auglýsingakerfum miðla eins og Facebook, Instagram, Google og Youtube, og glíma við raunveruleg verkefni fyrir alvöru viðskiptavini.

Skólinn er átta vikna nám undir handleiðslu skólastjóra og sérfræðinga SAHARA. Í gegnum námið munu nemendur takast á við fjölbreytt próf á vegum skólans auk þess að gangast undir próf frá Meta og Google sem vottar þau sem sérfræðinga.

Davíð Lúther Sigurðarsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar SAHARA segir í samtali við Markaðinn að ástæðan fyrir því að þau hafi stofnað skólann sé sú að þau hafi fundið fyrir því að fólk með menntun á sviði markaðssetningar skorti hagnýta þekkingu í faginu.

„Að okkar mati ættu menntastofnanir í meiri mæli að leggja áherslu á verklega kennslu samhliða bóklegri þekkingu. Það hefur vantað að okkar mati,“ segir Davíð og bætir við að þau hjá SAHARA hafi ákveðið að grípa til sinna ráða.

„Við héldum fyrstu önnina okkar í sumar og útskrifuðum sjö nemendur í ágúst. Við höfum í kjölfarið fengið heilmargar fyrirspurnir um skólann á samfélagsmiðlum og fundið fyrir miklum áhuga. Þess vegna ákváðum við að fara af stað aftur þann 26. október næstkomandi.“