Til greina kemur að tengja fleiri nýja raforkusamninga Landsvirkjunar við afurðaverð viðskiptavina, að sögn Tinnu Traustadóttur, framkvæmdastjóra orkusölusviðs Landsvirkjunar.

Nýlega var gengið frá viðauka við orkusölusamning Rio Tinto á Íslandi og Landsvirkjunar, þar sem hluti raforkuverðs til álversins við Straumsvík er tengdur álverði. Áður hafði það verið stefna Landsvirkjunar af láta af slíkum verðtengingum.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, sagði nýlega í samtali við Markaðinn að tenging raforkuverðs til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga við stundarverð kísilmálms í Evrópu væri eitthvað sem Elkem á Íslandi myndi vilja skoða.

„Að óbreyttum raforkusamningi er líklegt að eigendur skoði að loka henni. Við erum hins vegar að gera allt til að láta þetta ganga og það er mitt verkefni hér. En það segir sig sjálft að ef það er tap ár eftir ár þá mun verksmiðjunni verða lokað,“ sagði Álfheiður jafnframt.

Í nýjum raforkusamningum kemur til álita að skoða álíka fyrirkomulag þar sem lítill hluti raforkuverðs er tengdur afurðaverði í þeim tilvikum sem það hentar báðum aðilum

Sem stendur er Elkem með raforkusamning við Landsvirkjun til ársins 2029, en upprunalegur raforkusamningur frá árinu 1979 var framlengdur árið 2019 til 10 ára. Verð í samningnum hefur ekki verið gefið upp, en gerðardómur skipaður fulltrúum beggja fyrirtækja ákvarðaði skilmála framlengingarinnar.

Tinna segir að Landsvirkjun tjái sig ekki um viðræður við einstaka fyrirtæki. Fyrirtækið sé hins vegar í góðu samtali við Elkem sem og aðra viðskiptavini sína.

„Rio Tinto og Landsvirkjun undirrituðu viðauka við raforkusamning sinn í febrúar 2021. Líkt og verið hefur er uppistaðan í raforkuverðinu fast verð sem jafnframt er verðtryggt. Einnig er verðið að litlum hluta tengt álverði, sem gerir viðskiptavininn betur í stakk búinn til þess að takast á við sveiflur. Þannig er horft til sjónarmiða sem eru mikilvæg hvorum aðila fyrir sig og reynt að skapa jafnvægi í viðskiptasambandinu. Í nýjum raforkusamningum kemur til álita að skoða álíka fyrirkomulag þar sem lítill hluti raforkuverðs er tengdur afurðaverði í þeim tilvikum sem það hentar báðum aðilum,“ segir Tinna.